Vogunarsjóður í eigu George Soros, sem er einna þekktastur fyrir að hafa hagnast gríðarlega þegar hann felldi breska pundið árið 1992, keypti almennar kröfur á þrotabú Glitnis í desember síðastliðnum fyrir um 46 milljarða króna að nanfvirði. Þetta kemur fram í DV í dag.
Sjóðurinn sem um ræðir heitir Quantum Partners LP, er nú um tíundi stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis. Seljandi krafnanna var langstærsti kröfuhafi Glitnis, og í raun íslensks efnahagslífs, Burlington Loan Management sem stýrt er af bandaríska vogunarsjóðnum Davidson Kempner.
Miðað við gengi krafna á Glitni, sem eru um 27-29 prósent af nafnvirði, má áætla að markaðsvirði krafnanna sem Soros keypti sé um 13 milljarðar króna.
Vogunarsjóður Soros hefur gengið mjög vel undanfarin ár, en George Soros sjálfur er rúmlega áttræður. Hann sat til að mynda í öðru sæti á lista Forbes yfir þá stjórnendur vogunarsjóða sem högnuðust mest í fyrra. Hann þénaði 1,2 milljarð dala, 162 milljarða króna, til að bæta í þá rúmlega þrjú þúsund milljarða króna sem hann átti þá þegar.
Deutsche Bank líka stór
Kjarninn greindi frá því í byrjun desember síðastliðnum að þýski bankarisinn Deutsche Bank sé skráður eigandi að kröfum í þrotabú Glitnis upp á 157,1 milljarð króna að nafnvirði. Það gerði hann að þriðja stærsta kröfuhafa bankans á eftir Burlington Loan Management, írsku skúffufyrirtæki í eigu vogunarsjóðsins Davidson Kempner.
Deutshe Bank hefur bætt við sig miklu magni krafna á síðustu tveimur árum. Alls hefur hann keypt kröfur upp á 90,9 milljarða króna að nafnvirði frá byrjun árs 2013. Þar af hefur hann keypt kröfur upp á 77 milljarða króna á síðustu fimmtán mánuðum.
Þetta kemur fram í kröfuhafaskrá Glitnis sem birt var á kröfuhafafundi 20. nóvember síðastliðinn. Kjarninn hefur kröfuhafaskránna undir höndum.
Viðskipti Soros áttu sér stað eftir að sú kröfuhafaskrá var birt.
Sem fyrr er Burlington Loan Management stærsti kröfuhafi Glitnis. Sjóðurinn er stærsti einstaki kröfuhafi fallinna íslenskra banka og á auk þess hlut í fullt af öðrum íslenskum fyrirtækjum.