„Það er ekki að ástæðulausu sem hópur um áhættumat sagði að allt ferjuflug, æfinga- og kennsluflug ætti að flytjast af flugvellinum í Vatnsmýri og að þriðju flugbrautina ætti að leggja af,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í pistli á Tumblr vefsvæði sínu. Gísli Marteinn skrifar í pistlinum um það ef sambærilegt flugslys og það sem varð við Tungubakkaflugvöll yrði við flugvöllinn í Vatnsmýri.
„Nýlega varð flugslys við Tungubakkaflugvöll í Mosfellsbæ. Mikil mildi var að flugmaðurinn slapp lítið meiddur. Slysið varð við Langatanga samkvæmt fréttum, og að sögn flugmannsins var hann nýbúinn að hefja sig til flugs í vesturátt. Samkvæmt sömu frétt var ekki um lágflug að ræða eða neinskonar „glannaflug“,“ segir Gísli Marteinn og birtir tvær myndir þar sem hann ber saman vegalengdina milli flugbrautarinnar og brotlendingar, við Vatnsmýrina. „Þetta er tæpa 700 metra frá flugbrautarenda. Slys af þessum toga getur hent við hvaða flugvöll sem er,“ segir í pistlinum.
Vegalengd milli enda flugbrautar og brotlendingar flugvélarinnar sem tók á loft frá Tungubakkaflugvelli. Myndin er af Tumblr síðu Gísla Marteins.
Sama vegalengd frá enda flugbrautar á flugvellinum í Vatnsmýri. Myndin er af Tumblr síðu Gísla Marteins.
„Allir vita að flugvöllum fylgir viss áhætta. Þess vegna er gert áhættumat á þeim. Síðast þegar gert var áhættumat á flugvellinum í Vatnsmýri var niðurstaðan sú að loka ætti þriðju flugbrautinni (þessari sem áróðursmenn byrjuðu í fyrra að kalla neyðarbraut). Í nefndinni sem komst að því voru fyrrverandi flugmálastjóri, framkvæmdastjóri almannavarna ríkisins og framkvæmdastjóri hjá Flugmálastjórn, svo nokkrir séu nefndir. Ekki beinlínis menn sem stefna vilja öryggi neins í hættu. Einróma lögðu þeir til að þriðju flugbrautinni yrði lokað,“ segir Gísli Marteinn.