Gísli Marteinn Baldursson, fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, segist stoltur af því að Reykvíkingar sýni tilburðum stjórnmálaflokka sem hóta að taka af Reykjavík skipulagsvaldið eða grafa undan borginni með öðrum hætti fingurinn með afgerandi hætti. Að mati Gísla Marteins endurspeglast þetta í óvinsældum fjórflokksins, sem innan við 60 prósent landsmanna styðja nú, en yfir 90 prósent studdu áratugum saman. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook sem Gísli Marteinn setti inn í dag.
Gísli Marteinn vísar þar í frumvarp um að taka skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni af Reykjavíkurborg, sem lagt hefur verið fram af nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins, og yfirlýsingar stjórnmálamanna um sama efni.
Fjórflokkurinn hefur aldrei verið óvinsælli en nú. Innan við 60% landsmanna styðja flokkana 4 samtals, en þeir voru á...Posted by Gisli Marteinn Baldursson on Monday, May 4, 2015
Auglýsing
Kannanir og gildishlaðnar spurningar
Í stöðuuppfærslunni segir að fjórflokkurinn: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri græn, hafi aldrei verið óvinsælli en nú. "Fjórflokkurinn er óvinsælastur meðal ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu og skal engan undra enda sýna flokkarnir því svæði fullkomið áhugaleysi. Undantekningin á því er þegar ríkisstjórnin hótar að taka af Reykjavík skipulagsvaldið eða grafa undan henni með öðrum hætti. Ég er eiginlega bara stoltur af Reykvíkingum að sýna slíkum tilburðum fingurinn með jafn afgerandi hætti."
Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og fyrrum formaður VR, bendir í ummælum við færsluna á nýlega könnun sem sýni að átta af hverjum tíu aðspurðra séu andvíg því að neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Sú könnun var unnin fyrir samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni sem berst gegn lokun Reykjavíkurflugvallar. Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður og þjóðmálarýnir, segir á sama stað að sú könnun sé ekki marktæk þar sem spurningin sem beint var til svarenda hafi verið gildishlaðin.
Fjórflokkurinn í sögulegri lægð
Í nýrri könnun MMR sem birt var í dag kom fram að Píratar mælast með 32 prósenta fylgi. Flokkurinn mælist langstærstur, með um tíu prósentum meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist með tæp 22 prósent.
Aðrir flokkar eru með um og undir tíu prósenta fylgi samkvæmt könnuninni. Framsóknarflokkurinn mælist með 10,8 prósenta fylgi eins og Vinstri græn, Samfylkingin mælist með 10,7 prósent og Björt framtíð 8,3 prósent.