Tónlistarhátíðin ATP Iceland 2015 er nýafstaðin og var hún haldin í þriðja skiptið á gamla varnarsvæðinu á Ásbrú nú um helgina. Á fimmta þúsund manns sóttu hátíðina þegar mest var. Á hátíðinni voru eins og fyrri ár tvö svið, aðalsviðið í Atlantic Studios og minna sviðið sem staðsett er í Andrews Theater. Á svæðinu var einnig boðið uppa kvikmyndasýningar og fleira í Keilir Cinema sem og plötusnúða í The Officer‘s Club.
Því miður var klúbbnum skyndilega lokað fyrsta kvöldið þar sem einn hátíðargesta setti brunavarnakerfið í gang og var því ekki hægt að halda skipulagðri dagskrá gangandi þar út hátíðina. Óhætt er að segja að aðstaða til hátíðarhalda á Ásbrú er til fyrirmyndar þó að undirritaður saknaði örlítið grænni svæða.
Lifandi goðsagnir áttu fimmtudagskvöldið
Stærsti dagurinn á hátíðinni var án vafa fimmtudagurinn því þá spiluðu tónlistarmenn á borð við Iggy Pop, Public Enemy, Belle & Sebastian, Deafheaven og Run The Jewels. Þegar blaðamaður Kjarnans mætti á svæðið voru Chelsea Wolfe og hljómsveit í þann mund að gera sig klár í að fara á svið í Atlantic Studios. Chelsea var ein af fáum kvenkynsflytjendum á hátíðinni í ár og var lagaprógrammið hennar samsett af lögum fyrstu tveimur breiðskífunum, Apokalypsis og Pain Is Beauty, sem og væntanlegri breiðskífu hennar Abyss sem væntanleg er í næsta mánuði. Tónlist Chelsea er drungaleg, dramatísk og þung samsuða af nýbylgju- og þungarokki þar sem áhrif frá PJ Harvey, Earth, SUNN O))) og Sonic Youth dúkka upp. Hljómsveitin átti í smá tæknilegum örðuleikum til að byrja með en náði fljótlega flugi og skilaði sínu með miklum glæsibrag. Næstir á svið voru Deafheaven frá San Francisco. Deafheaven er fimm manna rokksveit sem blandar saman svartmálmi við tilfinningaþrungið sveimrokk og gerðu þeir það að mikilli staðfestu og öryggi á fimmtudaginn. Lagalisti Deafheaven samanstóð af lögum annarri breiðskífu þeirra, Sunbather, sem er ein af betri breiðskífum ársins 2013.
Næstur á svið var Lundúnabúinn Kevin Martin sem fer fyrir The Bug sem átti stórleik á Ásbrú. The Bug kom fram ásamt fjölda gestasöngvara og fluttu þau hip hop-, grime- og dancehall af mikilli ákefð og áfergju. Sannarlega eitt af bestu atriðum kvöldsins. Á eftir þeim stigu á stokk í Atlantic Studios einn af hápunktum hátíðarinnar, sjálfir Public Enemy. Public Enemy eru lifandi goðsagnir sem hafa verið að í um þrjá áratugi og eru forsprakkarnir tveir, Chuck D og Flavor Flav, báðir að nálgast sextugt. Vægast sagt þá voru Public Enemy í toppformi og rúlluðu þeir í gegnum hvern slagarann á fætur öðrum. Flest laganna voru lög af fyrstu fjórum breiðskífum þeirra en eitt og eitt nýrra lag mátti finna inn á milli. Ekki var að sjá að þarna væru menn á sextugsaldri að koma fram þar sem orkan og spilagleðin var í fyrirrúmi allt settið.
Iggy Pop er 68 ára gamall. Hann var samt sem áður ber að ofan nánast alla tónleikanna sem hann hélt á ATP, og í gríðarlegu stuði.
Á eftir Public Enemy steig aldursforsetinn á hátíðinni á stokk, hinn eini og sanni Iggy Pop. Það eru tvö ár í það að Iggy detti í sjötugt og lét hann öllum illum látum á meðan hann tætti í gegnum þekkt lög á borð við Lust For Life, Passenger, 1969 og I Wanna Be Your Dog. Hann gaf ekki tommu eftir alla tónleikana og var flutningurinn til fyrirmyndar þó að á sviðið vantaði lykilmann eins og Mike Watt í bandið. Undirritaður staldraði stutt við á Belle & Sebastian sem eru orðin mun fjörlegri en þau voru á sínum upphafsárum. Kvöldinu lokuðu þeir El-P og Killer Mike og fóru mikinn í hljómsveit sinni Run The Jewels. Run The Jewels hafa sent frá sér tvær breiðskífur og tóku obbann af lögunum á þeim. Flæðið og stuðið keyrt af fullum krafti á frábærum tónleikum.
Pabbarokk-bragur á Mudhoney
Þegar undirritaður mætti á svæðið á föstudeginum voru grugg-hetjurnar í Mudhoney að stíga á stokk í Atlantic Studios. Mudhoney voru ósköp afslappaðir á sviðinu og hamagangurinn ekki sá sami í þeim og þeir voru að stíga sín fyrstu skref á níunda áratugnum. Smá pabbarokk-bragur yfir tónleikum þeirra. Á eftir þeim komu emocore-goðsagnirnar í Drive Like Jehu á svið á sínum einu tónleikum í Evrópu þetta árið. Drive Like Jehu lögðu upp laupana um miðjan tíunda áratuginn eftir að hafa gefið út tvær frábærar breiðskífur og samanstóð tónleikaprógramm þeirra af lögum af þeim tveim. Þeir töluðu ekki mikið á milli laga og virkuðu flugþreyttir á að líta í byrjun. Þeir voru þó fljótir í gang og fluttu lög á borð við „Caress“, „Rome Plows“ og „Luau“ af mikilli innlifun, nákvæmni og spilagleði.
Pabbarokksbragur var á hinum sjóuðu Mudhoney.
Eitt stærsta band föstudagsins var í meðlimum talið voru Godspeed You! Black Emperor sem spila sömuleiðis stóra tónlist sem hlaðin er boðskapi og dramatík. Þau hófu tónleikana á öllum fjórum lögum nýjustu breiðskífu sinnar, Asunder, Sweet and Other Distress. Þau spiluðu í tvo og hálfan tíma og tók það á marga að standa á steyptu gólfinu þannig sumir nýttu tækifærið og fóru í nudd sem boðið var uppá í tónleikasalnum. Kvöldinu lokaði The Field hinn sænski og galdraði fram dreymandi tæknó sem tók mann inn í nóttina.
Margt gott í boði síðasta daginn
Margir vildu meina að öllum aðalböndunum hefði verið óheppilega raðað á fyrsta daginn. Margt frábært var í boði síðasta daginn og þegar Kjarnann bar að hafði kanadíska hljómsveitin Ought nýlokið spilamennsku og HAM farnir að telja í. HAMarar voru hægir í gang en komust á skrið þegar á leið. Stuttu síðar í Andrew‘s Theater steig kuldarokk-kvartettinn BÖRN á svið og voru mjög sjálfsörugg og þétt á sviðinu, það var smá dolluhljóð frá sviðinu en hljómsveitin skilaði sínu vel. Á eftir þeim steig ein af eftirtektarverðari sveitum hátíðarinnar á svið í Atlantic Studios og voru það hávaðaseggirnir í Lightning Bolt. Sveitina skipa nafnarnir Brian Chippendale og Brian Gibson og framkalla þeir háværan trans á bassa og trommur sem áhorfendur kunnu vel að meta. Einna mest saknaði undirritaður að heyra lög af annarri og þriðju breiðskífu sveitarinnar sem með melódískari verkum þeirra ef svo má segja.
HAM voru lengi í gang en hrukku svo í gírinn. Eins og rokklestin sem þeir eru.
Í kjölfarið á Lightning Bolt var komið að goðsagnarkenndu sveitinni Loop frá London sem nýverið gaf út sína fyrstu útgáfu í tæpa tvo áratugi. Loop spiluðu hávaðasamt en sveimkennt rokk sem minnir á MC5, My Bloody Valentine og Wire, allt í senn. Í Andrew‘s Theater spilaðu reykvísku hávaðabelgirnir Pink Street Boys og satt besta að segja var stemmningin tryllingsleg og þeir alveg í essinu sínu þessa tónleika. Háværastir allra hljómsveita á hátíðinni voru Swans sem voru auglýstir að myndu spila í tvo og hálfan klukkutíma í Atlantic Studios en þeir klipptu klukkutíma aftan af tónleikum sínum af óútskýrðum ástæðum. Tónleikar þeirra minntu um margt á eins konar messu þar sem söngvarinn Michael Gira predikaði og kyrjaði af miklum móð. Viðkvæm eyru þurftu þónokkur frá að víkja enda hávaðinn mikill.
Ghostigital stigu á stokk á eftir Swans og voru þeir ærslafullir að vanda. Einar Örn og Curver Thoroddsen eru einstakt tvíeyki og vill greinahöfundur taka fram að hefur enn ekki séð slaka tónleika með þeim félögum sem komu fram þetta kvöldið ásamt Kaktusi og Guðlaugi úr Fufanu. Steinsnar í Andrew‘s Theater spilaði ekki ósvipuð sveit og var það hip hop-þríeykið Clipping. frá Los Angeles sem fluttur höfðu verið um einn dag þar sem þeir höfðu lent í tímahrakförum á leiðinni hingað til landsins. Clipping. sýndu frábæra takta og var flæðið hjá Daveed Diggs alveg hreint kostulegt. Líkt og á tónleikum Pink Street Boys þá stóð fjöldi tónleikagesta dansandi í sætum og var það gaman að sjá.
Þrjú þúsund útlendingar og líklega aftur á næsta ári
ATP Iceland fór mjög vel fram í ár og lítið út á hana að setja nema hvað að missir var af stóru skemmtitjaldi sem var fyrir utan Atlantic Studios í fyrra. Einnig heyrði maður túrista tala um hversu áberandi lögreglan var á svæðinu í neikvæðri merkingu. Stemmningin á hátíðinni var mjög til fyrirmyndar og mikil gleði, friðsæld og tónlistarþorsti á svæðinu alla helgina.
Kjarninn hitti fyrir aðalskipuleggjanda hátíðarinnar sem var glaður í bragði og neitaði því ekki að hátíðin verði aftur að ári. Vonandi verður það raunin sem og að hlutur kvenna verði stærri að ári. Fjöldi útlendinga sem sóttu hátíðina í ár voru um þrjú þúsund talsins og er það ekkert nema jákvætt. Aðstaða til tónleikaiðkunar er til sóma eins og áður hefur komið fram og ekki veitir af þar sem loka á nokkrum af helstu tónleikastöðunum í Reykjavík á næstu mánuðum.