Það er gleðilegt að skuldir ríkisins séu að minnka. Það hefur verið eitt helsta verkefni stjórnmálamanna frá hruni fjármálakerfisins að ná tökum á ríkisfjármálunum. Frá því árið 2012 hafa skuldir ríkisins minnkað um 309 milljarða króna og eftir uppkaup ríkissjóð á eigin bréfum, útgefnum í Bandaríkjadölum, munu þær verða 1.403 milljarðar, eða sem nemur 63,8 prósent af árlegri landsframleiðslu.
Þetta er mikið gleðiefni, og gott til þess að vita að skuldirnar séu að minnka. Á tímabili var það ekki augljóst að ríkið myndi ná tökum á ríkisfjármálunum en allt miðar nú í rétta átt. Þó vitanlega megi deila um hvort peningum ríkisins sé skynsamlega varið, en það er eilífðarþrætuepli og á raunar að vera það, í gagnrýnum og góðum lýðræðisamfélögum.