Ríkisstjórnin samþykkti í morgun aukafjárveitingu upp á 37 milljónir króna, til þess að fjármagna kaup skattrannsóknarstjóra á gögnum um félög Íslendinga í skattaskjólum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is að samkomulag hafi náðst um kaupverð á gögnum og að kaupin gangi jafnvel í gegn í þessum mánuði. „Við afgreiddum í ríkisstjórninni að veita fjárveitingu af fjáraukalögum vegna málsins. Ég geri ráð fyrir því að í framhaldi af þessu verði gengið frá kaupunum við fyrsta tækifæri, líklega í þessum mánuði,“ sagði Bjarni við mbl. Nú væri það í höndum skattrannsóknarstjóra að ganga frá greiðslu og kaupum á gögnunum.
„Þetta eru þau gögn sem hafa verið í umræðunni og skattrannsóknastjóri hefur nú náð samkomulagi um kaupverð og ég hef fengið stuðning í ríkisstjórn til að tryggja fjármögnun í samræmi við óskir skattrannsóknarstjóra. Ég geri ráð fyrir því að það njóti almenns stuðnings,“ sagði hann jafnframt.