Gögn um 400 til 500 Íslendinga sem eiga eignir í skattaskjólum, og skattrannsóknarstjóri keypti nýverið, komu frá starfsmanni lögmannsstofunnar Mossack Fonseca & Co í Panama. Íslensku bankarnir leituðu oft til lögmannsstofunnar á árunum fyrir hrun í þeim tilgangi að stofna aflandsfélög. Þau félög voru síðar seld til íslenskra viðskiptavina bankanna. Þetta kemur fram í DV í dag.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Mossack Fonseca & Co, sem rekur 44 skrifstofur víða um heim, þar á meðal í Lúxemborg, og höfuðstöðvar í Panama, er til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum. Árið 2010 fjallaði DV um hafa í tengslum við þriggja milljarða króna lánveitingu fjárfestingafélagsins Fons, þá í eigu athafnamannanna Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, til félagsins Pace Associates í apríl 2007. Pace var skráð til heimilis í Panama.
RÚV sagði fréttir af því árið 2010 að peningarnir sem lánaðir voru til Pace hafi á endanum runnið í vasa Pálma, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Jón Ásgeir höfðaði meiðyrðamál gegn fréttamanninum sem sagði fréttina og vann það á endanum fyrir Hæstarétti. Fréttamaðurinn, Svavar Halldórsson, sagði í Facebook-stöðuuppfærslu í kjölfar dómsins: "Fréttin er sönn, til eru gögn fyrir öllum efnisatriðum umræddrar viðskiptafléttu og málið er til rannsóknar á fleiri en einum stað í kerfinu (eins og staðfest er í yfirlýsingu Sérstaks saksóknara). Sá hluti fréttarinnar sem fjallaði um hvernig yfirvöld töldu raunverulega í pottinn búið, byggðist hins vegar á trúnaðarupplýsingum frá heimildarmönnum sem ekki geta komið fram. Þeirra trúnaði mun ég ekki bregðast! Jóni Ásgeiri tókst engan vegin að sýna fram á að neitt rangt við fréttina – enda er þetta allt rétt."
Gögnin kostuðu 30 milljónir
Gögnin sem keypt voru, og eiga að sýna skattaundanskot Íslendinga, voru afhent síðastliðinn föstudag. Kaupverð var um 30 milljónir króna en í fyrstu vildi seljandinn fá 150 milljónir króna.
„Næsta skref er að átta sig betur á gögnunum og fara yfir þau. Gögnin eru í samræmi við það sýnishorn sem við höfðum áður séð. En það þarf að greina þau og setja upp áætlun um hvernig unnið verði úr þessu svo farsælast verði. Þetta er mikið magn,“ sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri í samtali við Kjarnann fyrr í vikunni.
Ríkisstjórnin samþykkti í apríl síðastliðnum aukafjárveitingu til embættis skattrannsóknarstjóra upp á 37 milljónir króna til þess að kaupa gögnin um fjárhagslegar eignir íslenskra aðila í þekktum skattaskjólum. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei fyrr keypt gögn sem þessi en bæði bandarísk og þýsk stjórnvöld hafa farið þessa leið með nokkrum ávinningi.
Skattrannsóknarstjóri fékk sýnishorn af gögnunum send í fyrra, og lét fjármálaráðuneytið vita af málinu. Sýnishornin 50 sem embættið fékk bentu sterklega til þess að skattaundanskot hafi átt sér stað.