Þá er sá tími ársins runninn upp, þegar Íslendingar hnýsast um launakjör landa sinna í tekjublaði Frjálsrar verslunar. Á meðan mörgum finnst þetta skemmtilegur tími, finnst öðrum forvitnin vera helst til of mikil.
Samkvæmt tekjublaðinu trónir Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands á toppnum, hvað kjör í pólitíkinni varðar, með 2,1 milljón króna í mánaðarlaun að jafnaði, á meðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þiggur tæpar 1,6 milljónir í laun á mánuði og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fær 1,2 milljónir inn á bankareikninginn sinn að meðaltali um hver mánaðamót.
Forsetinn þarf auðvitað að fá vel borgað, enda lýjandi handaböndin óteljandi. Svo má segja að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben hafi að einhverju leyti unnið fyrir laununum sínum með því að vinna sleitulaust að afnámi fjármagnshafta á undanförnum mánuðum. Þá eru auðvitað ótalin ýmis önnur verk þeirra þjóðinni til heilla.
Hins vegar vakti það töluverða athygli þegar greint var frá því í gær að tekjuhæsti alþingismaðurinn væri Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, með rúmar 1,6 milljónir í mánaðarlaun.
Ráðherratíð Ragnheiðar Elínar hefur nefnilega einkennst af vandræðagangi og kjördæmapoti einna helst, og steininn tók úr á dögunum þegar hún sagði að sprenging í komum ferðamanna til landsins hefði sett vinnu við stefnumótum í ferðaþjónustu í uppnám.
Í samtali við RÚV sagði ferðaþjónusturáðherrann: „Við þurfum að bæta úr vegna þess hversu fjölgunin hefur verið hröð á undanförnum árum. Við vorum aðeins tekin í bólinu, það er ekkert nýtt og ekkert sem er að gerast bara í sumar.“
Afsakanir ráðherrans um að vera „tekin í bólinu“ halda auðvitað engu vatni, enda á fjölgun ferðamanna til Íslands ekki að koma neinum á óvart. Henni hefur verið spáð ítrekað og lengi hefur blasað við í hvað stefndi. Sá eini sem er í sjokki yfir fjölgun ferðamanna er ferðamálaráðherrann sjálfur, sem er eilítið spaugilegt í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa varið háum fjármunum í að laða þá til sérstaklega landsins
Ragnheiður Elín getur að minnsta kosti prísað sig sæla að laun hennar séu ekki árangurstengd.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.