Það var gott hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra að gagnrýna mannréttindabrot Sádi Araba í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Til stendur að taka ungan mann af lífi fyrir litlar sem engar sakir, en slíkt er algengt í Sádi Arabíu, því miður.
Sádi Arabar hafa lengi fengið að fremja hroðaleg mannréttindabrot gagnvart fólki, ekki síst konum. Þær hafa verið grýttar til dauða fyrir litlar sem engar sakir, menn hálshöggnir og ofbeldi fært inn á opinberan vettvang svo að fólk geti fylgst með því.
Það fólk sem er í forystu fyrir Sádi Arabíu hefur mikil völd vegna þess að gífurlegur olíuauður dreifist lítið sem ekkert meðal fólks, heldur fær fámenn elíta að njóta lífsins og búa til pólitísk og viðskiptaleg sambönd.
Satt best að segja minnir þessi afstaða Sádi Araba, sem meðal annars hafa fengið að vera í forystu mannréttindaráðs á vegum Sameinuðu þjóðanna, helst á miðaldir og siðlaus samfélög. Vonandi munu íslenskir ráðamenn gera meira af því að gagnrýna hrikaleg mannréttindabrot Sádi Araba.