Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, hefur nú hafið söfnun fyrir neyðarathvarfi og rekstri útideildar fyrir ungmenni á götunni. Landsátakið, eins og söfnunin er kölluð í heilsíðu auglýsingu sem birtist í Fréttablaðinu í fyrradag, ber yfirskriftina: „Jól á götunni.“
Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta ýmist greitt valgreiðslukröfu upp á 650 krónur, sem komin er inn í heimabanka landsmanna, hringt í tiltekið númer þar sem 1.500 krónur færast á símreikning viðkomandi eða keypt svokallaðan verndarengil sem fer í sölu 5. desember næstkomandi.
Auglýsingin sem birtist í Fréttablaðinu í fyrradag.
Þá segir í auglýsingunni: „Að undanförnu hefur samfélagið misst allt of mörg ungmenni í kjölfar vímuefnaneyslu og fjöldi fjölskyldna glímir nú við harðan veruleika tengdum þessum heimi. Við svörum þörfinni með opnun neyðarathvarfs, stofnun og rekstri útideildar og þjónustumiðstöðvar fyrir ungmenni í vímuefnavanda og aðstandendur þeirra.“
Athygli vekur að merki lögreglu er að finna á auglýsingunni, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er ekki um að ræða formlegt samstarf á milli aðila. Lögreglustjarnan hafi verið send Götusmiðjunni til birtingar á auglýsingunni fyrir misskilning.
Fjögur ár liðin frá riftun á samningi við Götusmiðjuna
Nú eru liðin fjögur ár síðan Barnaverndarstofa rifti þjónustusamningi við meðferðarheimilið Götusmiðjuna í kjölfar ásakana um að Guðmundur Týr hefði haft í hótunum við börn sem voru vistuð á heimilinu. Guðmundur Týr stefndi síðar Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, fyrir meiðyrði. Tildrög málaferlanna má rekja til fréttaviðtals við forstjóra Barnaverndarstofu þar sem hann sagði meðal annars að samskipti Guðmundar Týs við unglingana hefðu farið yfir velsæmismörk og framganga hans valdið vanlíðan og óöryggi. Þá sakaði Bragi Guðmund Tý um að hafa hótað ungmennum líkamsmeiðingum. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi síðar forstjóra Barnaverndarstofu til greiðslu miskabóta og málskostnaðar vegna ummælanna, auk þess að dæma þau dauð og ómerk, en Bragi tók ekki til varna í málinu.
Götusmiðjan verður opnuð að nýju á föstudaginn, en nú standa yfir framkvæmdir í nýrri þjónustumiðstöð samtakanna við Stórhöfða. Samhliða opnuninni munu samtökin taka í gagnið sérstakt neyðarnúmer fyrir ungmenni í fíkniefnavanda, sem verður opið allan sólarhringinn. Samkvæmt frétt á mbl.is er ætlunin með símanúmerinu að taka á móti unglingum í fíkniefnavanda og veita þeim „fyrstu hjálp á götunni,“ eins og haft er eftir Guðmundi Tý í fréttinni. Unglingar í vanda geta hringt í númerið, sem verður gjaldfrjálst, og samtökin bjóðast þá til að sækja viðkomandi á þar til gerðum bíl og flytja í þjónustumiðstöðina þar sem lögreglu og barnaverndaryfirvöldum verður gert viðvart. Í annarri frétt á Pressunni er fullyrt að um sérhæft meðferðarúrræði sé að ræða.
Leyfisskyld starfsemi án leyfa
Samkvæmt eftirgrennslan Kjarnans hefur Götusmiðjan ekki sótt um leyfi fyrir starfseminni hjá Barnaverndaryfirvöldum, það er símaþjónustunni eða reksturs þjónustumiðstöðvar og neyðarathvarfs. Í 79. grein barnaverndarlaga segir að velferðarráðuneytið beri ábyrgð á að tiltæk séu heimili og stofnanir til að veita börnum í bráðatilvikum móttöku, til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika. Þá bera stjórnvöld ábyrgð á því að greina vanda barna sem talin eru þurfa sérhæfða meðferð, til að mynda vegna hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu eða meintra afbrota. Þá segir í barnaverndarlögum að Barnaverndarstofa, í umboði velferðarráðuneytisins, geti falið öðrum rekstur meðferðarúrræða á grundvelli þjónustusamnings og þá njóti viðkomandi fræðslu, leiðbeiningar og almennan faglegan stuðning frá Barnaverndarstofu.
Barnaverndarstofa vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað, til að forðast mögulegt vanhæfi við umfjöllun leyfisumsókna vegna starfsemi Götusmiðjunnar. Lögfræðingur stofunnar staðfesti hins vegar við Kjarnann að þjónusta sambærileg við þá sem Götusmiðjan hyggst bjóða upp á, sé leyfisskyld starfsemi. Ekki sé heimilt að veita börnum móttöku í bráðatilvikum án samnings við Barnaverndarstofu.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sinnir eftirliti með þjónustu við börn og unglinga í höfuðborginni lögum samkvæmt. Nefndin hefur ekki fengið neina kynningu, hvorki formlega né óformlega, frá Götusmiðjunni um hvernig þjónustunni sem samtökin hyggjast bjóða ungmennum borgarinnar upp á verði háttað. Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra nefndarinnar, furðar sig á því að Götusmiðjan hafi ekki óskað eftir formlegu samstarfi við barnaverndaryfirvöld og lögreglu, í samtali við Kjarnann, og beinir þeirri spurningu til foreldra hvort þeim finnist við hæfi að samtök sem ekki hafi tilskylin leyfi sinni börnum þeirra með þessum hætti.
Telur sig ekki þurfa leyfi fyrir símaþjónustu
Í samtali við Kjarnann fullyrðir forstöðumaður Götusmiðjunnar að símaþjónustan, það er að sækja unglinga í vímuefnavanda og færa þá öruggt skjól, sé ekki leyfisskyld starfsemi. Lögreglu og barnaverndaryfirvöldum verði alltaf gert viðvart, og hjá samtökunum vinni fagfólk sem muni sækja ungmennin og sinna, til að mynda vímuefnaráðgjafar og félagsfræðingar og annað menntað fagfólk. Guðmundur Týr hyggst hins vegar sækja um leyfi hjá barnaverndarfyrirvöldum fyrir starfsemi neyðarathvarfs, þegar því verði hleypt af stokkunum.
„Ég er alveg tilbúinn að sækja um öll þau leyfi sem til þarf, en þarf maður að sækja um leyfi til að sinna borgaralegri skyldu sinni? Það er alltaf skárri kostur að koma í Götusmiðjuna en að sofa á götunni, þannig að ég skil ekki að fólk sé að agnúast út í þetta. Er skárri kostur að þau séu á götunni og selji sig fyrir náttstað?“ Segir Guðmundur Týr í samtali við Kjarnann.