Tvær leiðir eru færar til þess að taka á þeim greiðslujafnaðarvanda sem Ísland stendur frammi fyrir við losun fjármagnshafta. Önnur er sú að eigendur innlendra eigna veiti afslátt á þeim í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Hin er sú að tryggja að kvikar eignir, þær sem eru líklegar til að vilja fara út úr íslensku hagkerfi við losun hafta, færist í langtímaeignir. Þetta kemur fram í nýrri greinargerð Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta sem var birt í dag.
Í greinargerðinni segir að aðstæður til losunar hafta séu nú um margt ákjósanlegar. „Gott jafnvægi er í þjóðarbúskapnum með afgangi af rekstri ríkissjóðs, verðbólga er lág og undirliggjandi er viðskiptaafgangur sem hefur skilað sér í uppbyggingu óskuldsetts gjaldeyrisforða, sem nemur í dag um 60 milljörðum króna.“
Þríþætt vandamál
Vandamálið sem Ísland standi frammi fyrir sé hins vegar greiðslujafnaðarvandamál. „ Það vandamál er þríþætt[...]aflandskrónuvandinn, vandamál tengd útgreiðslu úr fjármálafyrirtækjum sem sæta slitameðferð og hugsanlegt útflæði annarra aðila, þ.m.t. innlendra aðila. Áætlanir um losun hafta verða að tryggja að alvarleg hætta eða örðugleikar skapist ekki í gengis- og peningamálum. Gjaldeyrishöftin eru verndarráðstöfun sem hafa tryggt stöðugleika sem aftur skapaði forsendur fyrir endurskipulagningu fjármálakerfisins og úrvinnslu skuldamála heimila og fyrirtækja í landinu“.
Umfang aflandskrónuvandans nú er um 235 milljarðar króna og heildareignir fjármálafyrirtækja í slitameðferð eru um 2.400 milljarðar króna (41 prósent þeirra eru innlendar). Mun erfiðara er að leggja mat á mögulegt útlæði innlendra aðila en í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 13. mars er áætlað að það gæti numið um 500 milljörðum króna.
Í greinargerðinni segir að í reynd séu einungis tvær leiðir til að taka á þessum greiðslujafnaðarvanda. „Það er annað hvort gert með því að (i) veita afslátt af innlendum eignum þegar þeim er skipt fyrir erlendan gjaldeyri (e. haircut), (ii) að tryggja að kvikar eignir færist í langtímaeignir, þ.e. að lengja í skuldum. Skilmálar slíkra breytinga á eignum og skuldum verða því að tryggja að ómögulegt sé að gjaldfella þær eða koma á fyrra ástandi. Þannig má gera ráð fyrir skammtímaeigendur slíkra gerninga veiti afslátt af þeim (haircut) við sölu en langtímafjárfestar hagnist á þeim til lengri tíma litið.“