Rekstur Grímseyjarferjunnar Sæfara, sem sinnir siglingum á milli Dalvíkur og Grímseyjar og Dalvíkur og Hríseyjar, var síðast boðinn út árið 2002, eða fyrir þrettán árum. Flutningafyrirtækið Samskip hefur á þessum tíma rekið ferjuna samkvæmt samningi við Vegagerðina. Rekstrarsamningurinn hefur verið framlengdur sjö sinnum síðan 2002, en Vegagerðin hefur greitt tæpan milljarð króna í styrk með rekstri Grímseyjarferjunnar á tímabilinu, en um fimmtán prósent af styrknum eru vegna siglinga til Hríseyjar.
Ákveðið að framlengja af ýmsum ástæðum
Upphaflegur rekstrarsamningur Vegagerðarinnar við Samskip hljóðaði upp á tvö ár, en samningurinn var framlengdur um tvö ár árið 2004, eins og heimild var fyrir í samningnum. Samkvæmt skriflegu svari G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, við fyrirspurn Kjarnans, var ákveðið að framlengja vegna áðurnefndar framlengingarheimildar og vegna ánægju með verktakann, það er Samskip.
Þegar skipt var um Grímseyjarferju á árunum 2006 til 2008, eins og frægt er orðið, þótti Vegagerðinni ekki rétt að bjóða ferjuna út undir þeim kringumstæðum, að því er fram kemur í svari upplýsingafulltrúa stofnunarinnar. Því var rekstrarsamingur ferjunnar tvíframlengdur um eitt ár í senn, árin 2006 og 2007.
Vegna bankahrunsins ákvað Vegagerðin í lok árs 2008 að framlengja rekstrarsamning vegna Grímseyjarferjunnar um tvö ár til viðbótar. Síðan þá hefur samningurinn verið framlengdur í þrígang, í nóvember 2010 um eitt ár, þann 7. des 2011 var rekstrarsamningurinn framlengdur um tvö ár og þann 14. nóvember 2013 um tvö ár. Ástæður framlenginganna má rekja til ánægju Vegagerðarinnar með þjónustu og verð verktakans, að því er fram kemur í áðurnefndu svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Núgildandi rekstrarsamningur rennur út 31. desember næstkomandi. Hjá Vegagerðinni hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort og þá hvenær ráðist verður í útboð á rekstri Grímseyjarferjunnar.
Greiðslur með ferjunni hækkað um hundrað milljónir
Árið 2002 greiddi Vegagerðin tæpar 35 milljónir króna með rekstri Sæfara. Upphæðin tók litlum breytingum næstu árin á eftir, eða þar til árið 2006 þegar hún hækkaði upp í rúmar 44 milljónir króna. Árið 2008 tók samgöngustyrkurinn aftur stökk upp á við, og hækkaði upp í tæpar 67 milljónir króna.
Síðan þá hefur styrkur Vegagerðarinnar til Grímseyjarferjunnar hækkað nokkuð ört. Árið 2009 var hann kominn upp í tæpar 75 milljónir króna, árið eftir hljóðaði hann upp á tæpar 80,5 milljónir króna. Eftir ákvörðun Vegagerðarinnar um að framlengja rekstrarsamning Sæfara við Samskip í lok árs 2010, hækkaði niðurgreiðsla stofnunarinnar með rekstri Grímseyjarferjunnar um tæpar átján milljónir króna á milli ára, og fór upp í rúmar 98 milljónir króna árið 2011.
Samgöngustyrkurinn hækkaði um rúma 21 milljón króna árið eftir, eða upp í tæpar 120 milljónir króna. Árið 2013 nam samgöngustyrkur Vegagerðarinnar vegna Grímseyjarferjunnar röskum 124 milljónum króna, og í fyrra hækkaði styrkurinn um tæpar þrettán milljónir á milli ára og endaði í rúmum 137 milljónum króna. Frá árinu 2002 hefur því Vegagerðinn greidd Samskipum hátt í 937 milljónir króna vegna reksturs Grímseyjarferjunnar Sæfara.
Þess ber að geta að rekstrarsamningurinn er verðbættur með hliðsjón af vinnulaunum, olíukostnaði, hafnargjöldum og öðrum rekstrarkostnaði.