Vísbendingar eru um að mansal tengist kynlífsþjónustu á kampavínsklúbbum í Reykjavík. Ýmislegt bendir til þess að vændisþjónusta þrífist í kringum þessa staði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.
„Oft er þar um erlendar stúlkur að ræða en ekki liggja nægar upplýsingar fyrir um hvort þær séu fluttar inn nauðugar eða hindraðar í að ferðast um frjálsar. Þær eru jafnan ófúsar til samstarfs við lögreglu sem torveldar rannsóknir,“ segir í skýrslunni.
Greiningardeild lögreglunnar telur líklegt að vændisstarfsemi færist í vöxt á landinu, og segir óstaðfestar upplýsingar um að fylgdarþjónusta sé starfrækt hér á landi. Lögregla segir að ásamt kampavínsklúbbunum séu síður á netinu þar sem vændisþjónusta sé auglýst og að auki hafi landamæraverðir upplýst að grunur leiki á að erlendar konur komi gagngert til Íslands til þess að stunda vændi.
„Líklegt er að með vaxandi ferðamannastraumi til landsins aukist spurn eftir vændisþjónustu. Almennt hefur vændi lítt verið sýnilegt á Íslandi til þessa. Í nýlegum málum á höfuðborgarsvæðinu hafa komið fram upplýsingar sem benda til þess að erlendar vændiskonur leiti viðskiptavina á hótelum í Reykjavík. Í einhverjum tilvikum er þar um að ræða konur sem starfa á svokölluðum „kampavínsklúbbum“.“
58 sinnum frá árinu 2013 hafa komið upp tilvik þar sem grunur leikur á vændiskaupum. 52 einstaklingar hafa verið kærðir, allir nema einn voru íslenskir. Í tvö skipti var grunur um að þriðji aðili hagnaðist á vændinu, í öðru tilviki er málið fyrir dómstólum en í hinu fundust engar sannanir. Flest málanna tengjast kaupum á vændi af tveimur konum.