Hæstiréttur hefur úrskurðað að Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari þurfi að víkja sæti í Aurum-málinu, og snéri þannig úrskurði héraðsdóms sem úrskurðaði að hann þyrfti ekki að víkja sæti. Viðskiptablaðið greinir frá þessu.
Sérstakur saksóknari gerði kröfu um að Guðjón viki sæti í júní síðastliðnum. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði ástæðuna fyrir því vera eftirmál málsins þegar það var tekið fyrir í héraðsdómi. „Mat ákæruvaldsins er að hann geti ekki talist hæfur til að fara með málið úr því sem komið er.“
Eftir að Hæstiréttur ómerkti niðurstöðu héraðsdóms í málinu í apríl og vísaði því aftur til héraðsdóms sendi Guðjón tölvupóst til ríkissaksóknara og verjenda ákærðu þar sem hann ræddi málið. Með tölvupóstinum sendi hann grein sem hann hafði ætlað að birta í Fréttablaðinu, en gerði ekki. Þrátt fyrir að hann hafi hætt við birtingu sögðu 365 miðlar frá innihaldi greinarinnar í fréttum og leiðaraskrifum.
Hæstiréttur telur að orð hans þar væru til þess fallin að draga mætti með réttu í efa að hugur hans gagnvart sérstökum saksóknara væri með þeim hætti að tryggt væri að óhlutdrægni yrði gætt við úrlausn málsins.
Tjáðu sig í fjölmiðlum
Hæstiréttur ómerkti niðurstöðu héraðsdóms í Aurum-málinu í apríl og vísaði því aftur til héraðsdóms. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hafði krafist ómerkingar á grundvelli þess að einn meðdómari málsins, Sverrir Ólafsson, hefði verið vanhæfur til að fjalla um það. Sverrir er bróðir Ólafs Ólafssonar sem hlaut þungan dóm fyrir aðild að Al-Thani málinu fyrir skömmu.Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Glitnis, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri bankans, voru allir sýknaðir af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik í Aurum-málinu fyrir héraðsdómi.
Eftir sýknudóminn var greint frá tengslum Sverris og Ólafs í fjölmiðlum. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, greindi þá frá því að honum hafi ekki verið kunnugt um tengslin og að ef hann hefði vitað um þau hefði hann líklega gert athugasemdir við það. Í kjölfarið tjáðu bæði Sverrir og Guðjón St Marteinsson, sem var einn dómara málsins, sig um málið, og þeir hafa sagt að Ólafur hafi víst vitað um tengslin milli bræðranna. Sverrir fór hörðum orðum um Ólaf, sagði meðal annars að það bæri vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð ef saksóknari vissi ekki af tengslum bræðranna, en hann tryði ekki að svo væri. „Mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum,“ sagði Sverrir meðal annars við RÚV. Það var svo á grundvelli þessa sem málið var ómerkt.
Ummælin hafi fallið eftir „ómaklega aðdróttun“
Guðjón St. sendi ríkissaksóknara og verjendum ákærðu í málinu tölvupóst þann 18. febrúar síðastliðinn þar sem hann ræddi málið. „Ég varð bæði undrandi og fannst að mér vegið með ummælum sérstaks saksóknara í fjölmiðlum eftir uppsögu dómsins. Af því tilefni sendi ég hinn 10. júní 2014 stutta grein til birtingar í dagblaði. Mér þótti sanngjarnt og eðlilegt að greina ríkissaksóknara frá þessu og ræddi því við hana í síma sama dag auk þess að senda henni greinina. Sama dag ræddi ég símleiðis við sérstakan saksóknara sem kannaðist ekki við að hafa rætt bræðratengslin í símtali okkar 13. mars 2014 þótt hann kannaðist við símtalið og ýmislegt sem þar var rætt. Eftir þetta ákvað ég að birta ekki greinina enda ljóst að birtingin myndi valda miklu fjaðrafoki sem ekki væri á bætandi.“
Guðjón sagði í tölvupóstinum að á þessum tíma hafi hann hvorki séð fyrir né reiknað með að krafa ákæruvaldsins við áfrýjun yrði krafa um ómerkingu málsins. „Ég hefði hins vegar birt greinina hefði svo verið,“ segir í tölvupóstinum. Þá segir hann að Sverrir hafi látið ummælin falla í fjölmiðlum „eftir ómaklega aðdróttun sérstaks saksóknara í hans garð og raunar gegn mér einnig“.
Í dómi Hæstaréttar um ógildingu á niðurstöðu héraðsdóms er einnig vitnað í óbirtu blaðagreinina, þar sem Guðjón segir að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hafi hringt í hann og greint honum frá tengslum Sverris Ólafssonar og Ólafs Ólafssonar að fyrra bragði þann 13. mars 2014. „Lauk samtalinu með því að sérstakur saksóknari kvað ákæruvaldið ekki ætla að gera athugasemd við hæfi meðdómsmannsins og var það ekki gert.“ Þetta hefur komið fram í málinu áður og hefur Ólafur Þór sagt að í umræddu símtali milli hans og Guðjóns hafi hann rætt um það að Sverrir hafi unnið fyrir slitastjórn Glitnis. Þetta kemur einnig fram í dómnum, þar sem vitnað er til tölvupósts sem Ólafur Þór sendi til ríkissaksóknara þann 18. febrúar. „Enn og aftur skyldleikatengsl meðdómarans við C [Ólaf Ólafsson, innskot blaðamanns] voru ekki rædd í því símtali enda hefði ákæruvaldið þá klárlega gert athugasemd við þá skipan dómsins,“ sagði í tölvupóstinum.
Guðjón ákvað að draga grein sína um Aurum-málið, sem hann hafði sent Fréttablaðinu til birtingar, til baka eftir að honum varð „ljóst að birtingin myndi valda miklu fjaðrafoki sem ekki væri á bætandi.“ Þetta varð honum ljóst eftir að hafa rætt við ríkissaksóknara og sérstakan saksóknara. Eins og áður sagði var samt fjallað um bréfið í Fréttablaðinu.