Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur beint spurningum í níu liðum til Bankasýslu ríkisins vegna sölu Arion banka á eignarhlut í Símanum. Meðal þess sem þingmaðurinn spyr að er hvers vegna vildarviðskiptarvinum bankans hafi verið seldur hlutur í Símanum á undan öðrum á mun lægra gengi en í almennu útboði á 21 prósenta hlut í síðustu viku. Hann spyr einnig um hvert ferlið hafi verið þegar ákveðnum viðskiptavinum og stjórnendum Símans var boðið að kaupa hluti í fyrirtækinu á undan öðrum og hvort salan hafi mögulega falið í sér markaðsmisnotkun.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að stjórn Kaupskila, félags sem fer með 87 prósenta eignarhlut slitabús Kaupþings í Arion banka, muni taka málið til umfjöllunar síðar í þessari viku. Reynir Axelsson, stjórnarformaður Kaupskila, segir í samtali við blaðið að til greina komi að beina fyrirspurnum til bankans varðandi söluferlið en stjórnin hafi ekki tekið neina afstöðu ennþá.
Almennu hlutafjárútboði Arion banka á 21 prósenta hlut í Símanum lauk í síðustu viku og verða bréf félagsins tekin til viðskipta í Kauphöllinni næstkomandi fimmtudag. Mikil umframeftirspurn var í útboðinu og seldust bréfin á meðalgenginu 3,3. Áður, í ágúst síðastliðnum, var gengið frá sölu fimm prósenta hlutar í félaginu á genginu 2,5 til Orra Haukssonar, forstjóra Símans, og fleiri stjórnenda félagsins auk annarra fjárfesta. Í aðdraganda útboðsins seldi Arion banki síðan vildarviðskiptarvinum sínum samtals fimm prósenta hlut á genginu 2,8 krónur. Alls átti bankinn 38 prósenta hlut í Símanum, sem hann eignaðist eftir endurskipulagningu félagsins árið 2012, og stendur því eftir með undir tíu prósent eignarhlut.
Ver söluna
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag fjallar Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, um söluferlið og þá gagnrýni sem það hefur hlotið í fjölmiðlum. Hann segir að gagnrýnin sé „eftiráspeki“ og bendir á að ekki hafi verið hægt að gefa sér niðurstöðu útboðsins fyrirfram.
„Það sem liggur ljóst fyrir í dag að loknu útboði lá ekki ljóst fyrir nokkrum vikum og mánuðum áður en útboðið fór fram. Það er því auðvelt að gagnrýna þá ákvörðun að selja hluti á fyrrnefndu gengi, nú þegar niðurstaða útboðsins liggur fyrir. Eins og fyrr segir hefur Arion banki komið að fjölda hlutafjárútboða á undanförnum árum. Í þeim hefur eftirspurn verið misjöfn og verð hlutabréfa hefur endurspeglast af því. Í því samhengi má minna á útboð HB Granda hf. þar sem farið var út með verðbilið 26,6-32,5 krónur á hlut, en niðurstaða útboðs var 27,7 krónur á hlut, sem er talsvert undir miðgildi verðbilsins. Í tilfelli Eikar fasteignafélags var útboðsgengið 6,8 krónur á hlut á meðan verðbilið var 6,25-6,95 krónur á hlut. Í því tilfelli var útboðsgengið því yfir miðgildinu en nokkuð undir efri mörkum verðbils. Það er því ekki hægt að gefa sér þá niðurstöðu sem kom út úr útboði Símans fyrirfram. Sú staða hefði getað komið upp, ef útboðsgengið hefði endað við neðri enda verðbilsins, að bankinn hefði fengið á sig gagnrýni fyrir að selja hluti á 2,8 krónur á hlut með söluhömlum. Þá hefði það gengi mögulega þótt of hátt,“ skrifar Halldór Bjarkar.
Hann bendir einnig á að báðir hóparnir sem keyptu fyrir útboðið, þ.e. Stjórnendur og samfjárfestar annars vegar og viðskiptavinir eignastýringar og verðbréfamiðlunar Arion banka hins vegar, séu bundnir söluhömlum. Fyrrnefndi hópurinn má ekki selja bréfin fyrr en 1. janúar 2017 og hinn hópurinn má ekki losa um bréfin fyrr en þremur mánuðum eftir að bréfin eru tekin til viðskipta í Kauphöllinni. „Þeir sem gagnrýna mikinn hagnað af þessari fjárfestingu horfa fram hjá því að ekki er um innleystan hagnað að ræða og ómögulegt að sjá fyrir hvert hlutabréfaverðið verður í upphafi árs 2017. Að auki má nefna að fyrrnefndir kaupendahópar höfðu aðgang að takmarkaðri upplýsingum en kaupendurnir í hinu almenna útboði, þar sem skráningarlýsing lá ekki fyrir. Því er eðlilegt að þeim bjóðist bréfin á lægra verði til að endurspegla aukna áhættu,“ segir Halldór Bjarkar. Að sögn hans var markmið Arion banka að hámarka söluandvirði hlutarins og tryggja farsæla skráningu félagsins. Taldi bankinn það góða leið að minnka eignarhlut sinn í aðdraganda útboðs og skráningar.
„Það var mat Arion banka að það myndi styrkja hlutafjárútboðið og Símann til framtíðar að fá að félaginu hóp alþjóðlegra fjárfesta með reynslu af fjárfestingum og fjarskiptum í fjölda landa. Þessi hópur er því ekki einungis að koma með fjármagn í félagið heldur einnig dýrmæta þekkingu og reynslu á sviði fjarskipta sem mun vonandi nýtast félaginu og hluthöfum þess til framtíðar. Í því samhengi er rétt að halda því til haga að bankinn kom ekki að því að setja saman þennan fjárfestahóp, en gerði þó kröfu um að hópurinn byggi yfir alþjóðlegri reynslu og tengslum. Stjórnendur Símans settu fjárfestahópinn saman,“ segir í greininni og tekur Halldór Bjarkar fram að salan til hópsins hafi staðið yfir allt frá snemma árs 2015 og að verð hafi verið ákveðið snemma. Ýmis tæknileg vandamál hafi hins vegar frestað því að gengið var frá viðskiptum en fjárfestar frá fimm löndum eru í hópnum.
Auðvelt að gagnrýna bankann
Í lok greinarinnar segir Halldór Bjarkar að nú þegar söluferlinu sé nánast lokið og allar upplýsingar liggi fyrir þá sé auðvelt að gagnrýna bankann fyrir það að selja hluti á gengi sem var lægra en útboðsgengið. Þær upplýsingar hafi aftur á móti ekki legið fyrir í upphafi ferlisins auk þess sem samanburðurinn taki ekki til skilmála þeirrar sölu hvað varðar sölubann.
„Það er allsendis óvíst hvaða áhrif það hefði haft á niðurstöðu útboðsins ef framboð hefði verið meira eða ef Arion banki hefði ætlað að eiga fleiri bréf að útboði loknu. Hér nægir að horfa á reynslu fyrri útboða til að sjá að það er ekki sjálfgefið að útboðsgengið endi í efri mörkum verðbils. Fullyrðingar sem hafa heyrst um ofurgróða þeirra sem fjárfestu í hlutabréfum Símans með sölubanni til byrjun árs 2017 eru því ekki á rökum reistar og bíða þarf til ársins 2017, þegar söluhömlum verður aflétt, til að sjá hver lokaniðurstaðan verður á þeim viðskiptum. Það er þó vitaskuld von bankans að fjárfestingar í Símanum, bæði í útboðinu og aðdraganda þess, reynist farsælar.“