Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem ritari flokksins. Þetta tilkynnti Guðlaugur Þór í kvöldfréttum RÚV rétt í þessu. Ákvörðun Guðlaugs Þórs kemur í kjölfar þess að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum formaður Heimdallar, tilkynnti skyndilega í dag að hún ætlaði að bjóða sig fram gegn Guðlaugi Þór í þriðja valdamesta embætti flokksins. Hún er 24 ára lögfræðinemi.
Guðlaugur Þór sagðist hafa tekið ákvörðunina með hagsmuni flokksins að leiðarljósi. Þegar öflugt mórframboð frá ungum flokksmanni þá vilji hann stíga til hliðar og veita henni tækifæri til að koma inn í framvarðasveitina. Áslaug Arna verður því ein í framboði til embættis ritara þegar kosið verður á morgun.
Áslaug Arna sagði að ákvörðun Guðlaugs Þórs hafði komið flatt upp á sig en fagnaði því að þau væri sammála um að það þyrfti að breyta einhverju. "Ég er ánægð með að við séum sammála um að við þurfum að breyta einhverju".
Ungir sjálfstæðismenn hafa sannarlega látið fyrir sér finna á landsfundi flokksins um helgina. Alls hlutu níu af hverjum tíu tillögum þeirra brautargengi í málefnanefndum á landsfundi flokksins og munu því verða aðaltillögur nefndanna þegar kosið verður um þær á morgun. Ungir sjálfstæðismenn sendu í gær frá sér lista með um 80 breytingartillögum á ályktunardrögum sem málefndanefndir flokksins höfðu útbúið í aðdraganda landsfundar, sem nú stendur yfir. Auk þess fjölmenntu ungliðar á fundinn til að styðja við tillögurnar. Alls var búist við um 300 ungum einstaklingum og að metþátttaka yrðu á meðal ungs fólks.
89 prósent tillagna hlutu brautargengi
Tillögurnar sem ungu flokksmennirnir lögðu fram voru af ýmsum toga. Þeir lögðu til dæmis til að sýslumenn taki alfarið yfir hjónavígslur, að Ríkisútvarpið verði lagt niður, að kosningaaldur verði lækkaður í 16 ár og að sérstök áhersla verði lög á málefni trans- og intersexfólks. Auk þess kölluðu þeir eftir breyttum áherslum í húsnæðismálum og telja að framtíðarlausn í gjaldmiðlamálum felist í öðrum gjaldmiðli en krónunni.
Í nýrri tilkynningu, sem send var í dag, greina fulltrúar ungra sjálfstæðismanna frá því að 89 prósent tillagna þeirra hafi hlotið brautargengi í nefndum og munu því verða aðaltillögur nefndanna fyrir fundinum á morgun.
„Tillögur ungra fólu meðal annars í sér aðskilnað ríkis og kirkju, afnám refsistefnu í fíkniefnamálum og litið verði á fíkn sem heilbrigðismál ekki löggæsluvanda, lægri kosningaaldur, bætt skattaumhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki, staðgöngumæðrun, lögfestingu NPA, netfrelsi, að losa landbúnaðinn við fjárstuðning ríkisins, afnám lágmarksútsvars, að tekið sé til gagnerrar endurskoðunar hvernig tekið er á kynferðisbrotamálum og að ekki ætti að leggja almannafé í stóriðju sem ekki skilar arðsemi fyrr en eftir langan tíma. Fjöldi annarra mála ungra sjálfstæðismanna fóru í gegn.
Þá fengu ungir sjálfstæðismenn samþykkt ýmsar úrbætur í málefnum hinsegins fólks. Þar má nefna að blóðgjafar verði metnir á forsendum heilsufars óháð kynhneigð, mannréttindi trans og intersex fólks, jöfn réttindi samkynheigðra foreldra og að ekki yrði talað um konur og karla þar sem það útilokar hið þriðja kyn“.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst með minna fylgi í aðdraganda landsfundar en hann gerir nú, en samkvæmt síðustu könnun er fylgi flokksins 21,4 prósent. Í könnun sem MMR gerði í lok maí komi í ljós að 12,5 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára studdi flokkinn.