Guðmundur Björgvin Helgason, starfandi ríkisendurskoðandi, hefur verið kosinn ríkisendurskoðandi til næstu sex ára. Alþingi samþykkti skipun hans rétt í þessu eftir tillögu frá forsætisnefnd.
Atkvæði féllu þannig að hann hlaut 54 samhljóða atkvæði en þrír þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Guðmundur var í hópi 12 umsækjenda um embætti ríkisendurskoðanda. Samkvæmt lögum skal forsætisnefnd gera tillögu til þingsins um einstakling til að gegna embættinu, sem svo verður kjörinn á þingfundi. Alþingi kýs ríkisendurskoðanda til sex ára í senn en heimilt er að endurkjósa sama einstakling einu sinni.
Skúli Eggert Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, tók við nýju starfi í byrjun febrúar síðastliðins þegar hann var fluttur til starfa í embætti ráðuneytisstjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, fól í framhaldinu Guðmundi B. Helgasyni stjórnmálafræðingi að gegna starfi ríkisendurskoðanda þar til kosning nýs ríkisendurskoðanda færi fram á Alþingi.
Guðmundur Björgvin var sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun og forstöðumaður skrifstofu embættisins á Akureyri. Hann var áður ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneyti og mannauðsstjóri hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Jórdaníu.