Guðmundur Pálsson, fjölmiðlamaður og Baggalútur, sagði nýverið upp störfum hjá RÚV og hélt af landi brott ásamt fjölskyldu sinni, og ferðast nú um Evrópu á fjölskyldubílnum. Guðmundur var einn umsjónarmanna Morgunútvarpsins á Rás 2 um árabil, en síðustu mánuði hefur hann unnið að dagskrárgerð fyrir sjónvarpsþáttinn Landann á RÚV.
Guðmundur ferðast nú um þjóðvegi Evrópu, ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum. Hann mun halda úti vikulegum þáttum í Hlaðvarpi Kjarnans, þar sem hann mun færa ferðasögu fjölskyldunnar til heimilda, en þættirnir hafa hlotið nafnið: "Pabbi þarf að keyra." Í samtali við Kjarnann segir Guðmundur: "Við vorum bara orðin þreytt á mikilli vinnu og hinu daglega argaþrasi á Íslandi, og þurftum á tilbreytingu að halda. Við erum sannfærð um að ferðin muni bara styrkja fjölskylduböndin, og varla er hægt að hugsa sér betri fjárfestingu en það."
Guðmundur Pálsson og fjölskylda við fjölskyldubílinn í Lúxemborg, en myndin var tekin á sunnudaginn.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir Guðmund vera mikinn feng fyrir fjölmiðlafyrirtækið. "Við erum í skýjunum yfir að hafa fengið Guðmund Pálsson til liðs við okkur. Hann er drengur góður, mikill fagmaður, og ég er viss um að þjóðin hefur áhuga á að heyra hvað hann og fjölskylda hans eru að bauka á meginlandinu. Hann hefur fyrir löngu unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með Baggalúti, og fágaðri framkomu á öldum ljósvakans á undanförnum árum."
Fyrsti þátturinn um ferðalag Gumma Páls og fjölskyldu verður aðgengilegur í Hlaðvarpi Kjarnans á morgun klukkan 13:00, og verður framvegis vikulega á dagskrá á sama tíma.