Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, segir Pírata oft minna „á okkar mesta stjórnmálamann, Ragnar Reykás. Þeir geta nefnilega skipt um skoðun og skammað sjálfa sig fyrir vitleysuna – sem er svo einlægt og yndislegt“. Þetta kemur fram í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag. Fyrir þá sem ekki þekkja til Ragnars Reykás þá var hann persóna í þáttum Spaugstofunnar sem skipti ítrekað um skoðun á öllu milli himins og jarðar á augabragði.
Guðni segir Pírata, sem nú mælast með 36 prósent fylgi, vera Veðurstofuna í flokkaflórunni og pólitíkinni og að þeir séu „á furðuflugi í vinsældum“. „Þar safnast óánægðir kjósendur saman til að gá til veðurs í pólitíkinni. En mikil mistök yrðu það hjá Pírötunum að ætla að fara að hnoða saman stefnu í öllum stórum málum, þar með yrðu þeir venjulegur „hallærislegur,“ stjórnmálaflokkur. Þá fara þeir að berjast innbyrðis og takast á um punkta og kommur. Það sem flestum finnst langsnjallast hjá þeim er að vera eins og Veðurstofan eða maðurinn á götunni, tala bara um veðrið og atburði líðandi stundar eins og Jón og Gunna gera upp á hvern einasta dag. Píratarnir eiga orðið fylgi þriðja hvers manns í landinu samkvæmt skoðanakönnunum án þess að nokkur viti hverjir þeir eru eða hvert þeir eru að fara, galopnir í báða enda í hverju máli. Og oft minna þeir mann á okkar mesta stjórnmálamann, Ragnar Reykás. Þeir geta nefnilega á einu augabragði skipt um skoðun og skammað sjálfa sig fyrir vitleysuna - sem er svo einlægt og yndislegt.“
Segir Framsókn og Sjálfstæðisflokk þá einu með grasrót og bakland
Að mati Guðna væri alls ekki víst að Björt framtíð væri nú að deyja drottni sínum ef flokkurinn, sem hann kallar Litlu-Samfylkinginuna, hefði sleppt því að taka upp stefnu „sem þeir reyndar ljósrituðu úr stefnuskrá Stóru-Samfylkingarinnar“.
Guðni gerir mikið úr því að stefna sé í dag orðið til bölvunar í pólitík. „Hugsið ykkur, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa setið í fast að eitt hundrað árum með einhverju „þvermóðsku“-fólki að rífast um aukaatriði í pólitík, einhverja stefnuskrá og svo er rifist um hvert smáatriði, að vísu eru þetta einu flokkarnir sem eiga sér grasrót og bakland.“
Hann snýr sér síðan aftur að Pírötum og segir þá nú vilja að næsta kjörtímabil verði notað til að semja sig inn í Evrópusambandið. Þar er Guðni að vísa í þá samþykkt aðalfundar Pírata að þjóðin fái að kjósa um Evrópusambandsviðræður á næsta kjörtímabili. „Sannarlega taldi ég víst að Píratarnir vildu áfram vera flokkur sem ætti sér enga stefnu og væru svona eins og andatrúin, frjálsir og dularfullir eða eins og segir í hinni helgu bók, „svar þitt skal vera já, já og nei, nei,“ þótt þeir segist að vísu vera trúlausir. Píratarnir segja svo hiklaust að það sé skemmtilegra að vera í tjörunni en á Alþingi, svona tal nær eyrum almennings og þykir flott. Og þegar flokkshestarnir í hefðbundnum stjórnmálaflokkum með þvælda stefnuskrá fara í fýlu er svo auðvelt í gleði sinni eða reiði að segjast vera Pírati og ætla að kjósa þá. Því vilja margir bara hafa Píratana eins og þeir eru. Nú hefur enginn horn í síðu þeirra og þeir reka svona hvíldarheimili fyrir þá sem eru á milli vita í pólitíkinni. Í dag eru þeir öðruvísi flokkur, stefnulausir mælast hátt, hvað svo?“
Píratar mældust með 36 prósent fylgi í nýjustu könnun Gallup sem gerð var í ágúst. Flokkur Guðna, Framsóknarflokkurinn, mælist með ellefu prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn, sem situr í ríkisstjórn með Framsóknarflokkurinn og er hinn flokkurinn sem á sér grasrót og bakland að mati Guðna, mælist með 22 prósent fylgi.