Dr. Guðrún Nordal hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis rektors Háskóla Íslands. Rektorskjörið fer fram um miðjan apríl og geta allir starfsmenn, nemendur og fastráðnir kennarar skólans tekið þátt í atkvæðagreiðslunni en Kristín Ingólfsdóttir núverandi rektor hefur lýst því yfir að hún sækist ekki eftir endurkjöri. Tíu ár eru liðin frá síðasta rektorskjöri.
Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræði, hefur einnig lýst yfir framboði til rekstors, eins og greint var frá á vef Kjarnans.
Guðrún er prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, „skipuð í það embætti árið 2009 af Katrínu Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra og endurskipuð í
fyrra af núverandi menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni,“ að því er segir í fréttatilkynningu um framboð hennar.
„Guðrún mun beita sér fyrir auknu fjármagni til kennslu og rannsókna, standa vörð um gæðakröfur í vísindum, kennslu og námi, láta meta þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi sviða, deilda og stjórnsýslu skólans,
stuðla að frjórri umræðu í skólanum, endurskoða kennslulíkanið og efla þátttöku Háskólans í nýsköpun í samfélaginu,“ segir í tilkynningu frá Guðrúnu.
Hún segir ýmislegt hafa áunnist í starfsemi Háskóla Íslands á undanförnum árum, en margt sé þó hægt að gera betur. „Umtalsvert hefur áunnist í starfsemi Háskóla Íslands á undanförnum árum þrátt fyrir að honum hafi verið mjög þröngur stakkur skorinn. Við getum þó gert betur á mörgum sviðum. Mikilvægt er að virkja þjóðarviljann enn á ný til að lyfta megi grettistaki í rannsóknum og fræðum svo að skólinn geti laðað afburðafólk til starfa. Létta þarf á miklu vinnuálagi, auka vellíðan starfsmanna og efla nýliðun eftir langt niðurskurðarskeið. Háskóli Íslands er einn mikilvægasti hlekkurinn í velferð og hagsæld þjóðarinnar, hreyfiafl framtíðar og komandi kynslóða,“ segir Guðrún.