Til stendur að klára frumvarp Eyglóar Harðardóttur um húsnæðisbætur á þessu þingi, þrátt fyrir að það sé enn ekki komið inn í þingið. Samkvæmt nýja húsnæðisbótakerfinu verða grunnbætur hækkaðar talsvert og að sumu leyti er verið að gera kerfið líkara vaxtabótakerfinu hjá þeim sem eiga húsnæði. Eitt af því sem það hefur í för með sér er að bætur almannatrygginga verða ekki lengur undanskildar þegar teknar eru saman þær tekjur sem skerða bæturnar. Og hvað þýðir það? Að mati fjármálaráðuneytisins þýðir það að aldraðir og öryrkjar fá hlutfallslega minni hækkun á sínum bótum en þeir sem eru í vinnu og í námi, eins og Kjarninn greindi frá í gær. Þetta kemur til viðbótar fjölmörgum öðrum athugasemdum fjármálaráðuneytisins við frumvarpið, meðal annars að kerfið muni hagnast þeim tekjuhærri betur en þeim tekjulægstu – þessar nýjustu fréttir renna stoðum undir það. Ráðuneytið telur líka að aðgerðirnar hagnist leigusölum fremur en leigutökum.
En þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið hafi gert miklar athugasemdir við frumvarpið var það engu að síður kynnt sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga. Og frá því hefur verið greint að það standi til að klára málið á þessu þingi. Hvað varð eiginlega um athugasemdir fjármálaráðuneytisins, sem sagði veigamikla ágalla á frumvarpinu?