Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ítrekaði í dag stuðning Íslands við þvingunaraðgerðir gegn Rússum á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem haldinn var í Kaupmannahöfn. Á fundinum útskýrði Gunnar Bragi jafnframt þá stöðu sem blasir við íslenskum sjávarútvegi eftir að Rússland bætti Íslandi á lista yfir lönd sem innflutningsbann er á.
Í frétt á vef utanríkissráðuneytisins segir að Gunnar Bragi hafi einnig fjallað um öryggismál í norðanverðri Evrópu og mikilvægi norrænnar samvinnu í varnarmálum. Að fundi loknum samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu um svæðisbundin öryggismál.
Þá var leiðtogafundur um loftlagsmál, sem fram fer í París í desember, einnig á dagskrá fundarins. Í frétt ráðuneytisins segir að ráðherrarnir hafi verið "sammála um nauðsyn þess að styðja fjárhagslega við aðgerðir í þróunarríkjum til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum."
Af öðrum málum sem rædd voru má nefna málefni Grikklands, væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu, orkuöryggi í Evrópu, uppgang hryðjuverkasamtakanna ISIS í Miðausturlöndum og Norður Afríku og ástandið á Miðjarðarhafinu.
Ekki eining um afstöðu Gunnars Braga
Ekki hefur ríkt eining um þá afstöðu Íslendinga að styðja aðgerðir gegn Rússum eftir að þeir bættu Íslandi á lista yfir þau lönd sem eru í innflutningsbanni. Margir, meðal annars stjórnarliðar, vilja að Ísland taki viðskiptahagsmuni sjávarútvegs framyfir stuðning við þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja gegn Rússum.
Rússnesk stjórnvöld tilkynntu um veru Íslendinga á listanum 13. ágúst síðastliðinn. Bannið hefur í för með sér að stærsti markaður með uppsjávarfisk lokast fyrir íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Rússar hafa á síðustu árum meðal annars verið stærsti kaupandi íslensks makríls. Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Rússlands á síðasta ári nam um 24 milljörðum króna samkvæmt Hagstofunni. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi áætla að undir eðlilegum kringumstæðum myndi verðmæti sjávarafurða í ár til Rússlands nema um 37 milljörðum króna. Ekki liggur fyrir hvert tap íslensks sjávarútvegs verður vegna bannsins.