Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir ummæli Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, flokkssystur sinnar og borgarfulltrúa, um Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, vera „út í hött“. Þetta er haft eftir Gunnari Braga á vef RÚV. „Guðfinna þarf að skýra hvað henni dettur í hug. Ég held að fólk ætti að hugsa áður en það setur eitthvað á bloggið, hvort sem það er snemma dags eða seint á kvöldin,“ sagði Gunnar Bragi.
Guðfinna Jóhanna birti færslu á Facebook í nótt þar sem hún sagði Eygló vera ömurlegan ráðherra og að hún skammist sín fyrir að vera í sama flokki og Eygló. Færslan hefur verið fjarlægð af Facebook-vegg Guðfinnu. Færsluna má lesa hér að neðan.
Guðfinna tjáði sig um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag og sagði að Eygló þyrfti að taka sig á. „Ég held það sé hægt að finna miklu hæfara fólk í þessi mál. Mér finnst hún hafa staðið sig mjög illa og annað hvort þarf hún bara að taka sig verulega á og fara að vinna þessi mál af skynsemi í staðinn fyrir að segja að það sé fjármálaráðuneytið sem sé að stoppa hana í hennar málum. Þetta eru illa unnin frumvörp hjá henni. Nú ef hún getur það ekki þá tel ég rétt að það sé fundinn einhver annar einstaklingur til þess að gegna þessu embætti,“ sagði Guðfinna og vísaði til húsnæðisfrumvarpa Eyglóar sem ekki náðu fram að ganga á síðasta þingi.