Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að það mat þáverandi stjórnarandstöðu, sem flokkur hans var hluti af, árið 2010 að einungis Alþingi hefði vald til að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka hafi verið rangt. Þetta kom fram í viðtali við hann í Kastljósi í kvöld.
Gunnar Bragi tilkynnti Evrópusambandinu bréfleiðis að Íslandi væri ekki lengur umsóknarríki að sambandinu síðastliðinn fimmtudag. Málið fór ekki fyrir Alþingi áður en bréfið var sent.
Þingsályktun um slit
Í október 2010 var lögð fram þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka. Flutningsmenn hennar voru meðal annars Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki, Ásmundur Einar Daðason Framsóknarflokki, Birgitta Jónsdóttir sem þá sat á þingi fyrir Hreyfinguna og Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki. Í greinargerð með tillögunni sagði meðal annars: „„Fyrir Alþingi hefur verið lögð þingsályktunartillaga um að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka. Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka, en minnt er á að sami þingmeirihluti situr nú og við samþykkt umsóknarinnar.
Líklegt er að komi sú tillaga til afgreiðslu falli atkvæði á sama veg þar sem hótun um stjórnarslit liggur í loftinu. Þingsályktunartillaga þessi, um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, er því sáttatilraun. Meiri hluti alþingismanna endurspeglar ekki meiri hluta þjóðarinnar í afstöðunni til aðildar að Evrópusambandinu. Það er því á grunni sanngirnissjónarmiða sem þessi tillaga er lögð fram. Fari svo að samþykkt verði að sækja um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu á grunni þingsályktunartillögu þessarar hafa stjórnvöld fengið skýrt umboð í hendur, ekki fyrr.“
Höfðu rangt fyrir sér
Gunnar Bragi var gestur Kastljóss í kvöld og þar var hann spurður út í þá fullyrðingu sem kom fram í ofangreindri tillögu um að „Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka“, en Gunnar Bragi studdi á sínum tíma tillöguna.
Hann aðspurður augljóst að þeir sem stóðu að tillögunni og studdu hana hafi haft rangt fyrir sér. „Það sjá allir að við höfðum rangt fyrir okkur[...]Ríkisstjórnin er ekki bundin af ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar.“