Bardagakappinn Gunnar Nelson lagði andstæðing sinn, Bandaríkjamanninn Brandon Thatch, með töluverðum yfirburðum á UFC-bardagakvöldinu sem fram fór í nótt í Las Vegas.
Gunnar náði Bandaríkjamanninum í gólfið í fyrstu lotu, eftir að hafa veitt honum þungt vinstri handar högg, þar sem hann náði góðu taki á honum og hengdi þar til Thatch gafst upp. Bardaginn var ekki nema þriggja mínútna gamall þegar úrslitin lágu fyrir.
Þetta var fyrsti bardagi Gunnars í Bandaríkjunum, en veðbankar töldu Thatch líklegri til að standa uppi sem sigurvegari í lok bardagans. Allt kom þó fyrir ekki, og ljóst má vera að frammistaða Gunnars í viðureigninni muni vekja athygli. Um var að ræða fyrsta bardaga hans síðan hann tapaði illilega fyrir Bandaríkjamanninum Rick Story í október.
Þá stóð Írinn Conor McGregor við stælana og stóru orðin og hafði betur í viðureign sinni við Chad Mendes frá Mexíkó og hlaut fyrir vikið heimsmeistaratitil til bráðabirgða. Til þess að staðfesta titilinn þarf McGregor að sigra Jose Aldo, sem átti að berjast við Írann í nótt, en dró sig út úr keppni nýverið sökum meiðsla.