Gunnari Scheving Thorsteinssyni lögreglumanni, sem sætti ákæru ríkissaksóknara í LÖKE-málinu svokallaða, hefur verið boðið aftur til starfa hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var Gunnari tilkynnt símleiðis í dag um að hann gæti snúið aftur til starfa, og að aðgangur hans að upplýsingakerfum hafi verið endurvirkjaður. Hann hyggst mæta á lögreglustöðina á morgun til að fá nýtt lögregluvesti, en fyrsta vakt hans verður um komandi helgi.
Gunnar Scheving var handtekinn á síðasta ári, vikið tímabundið frá störfum hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins og síðar ákærður fyrir að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrá lögreglu, LÖKE-kerfinu svokallaða, án þess að það tengdist störfum hans sem lögreglumaður. Þá var hann sakaður um að hafa miðlað persónuupplýsingum sem áttu að fara leynt til þriðja aðila.
Ríkissaksóknari felldi niður veigamesta ákærulið málsins í síðustu viku, eftir að í ljós komu verulegir ágallar á rannsókn málsins sem var á forræði ríkissaksóknara en unnin af lögreglunni á Suðurnesjum undir yfirstjórn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur aðstoðarlögreglustjóra. Alda Hrönn er nú aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Gunnar var sýknaður af seinni ákæruliðnum í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og hyggst sækja skaðabætur til íslenska ríkis vegna rangra sakagifta.