Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldavinnslunnar, segir að stjórnvöld á Íslandi eigi ekki að taka þátt í því að beita Rússa viðskiptaþvingunum, heldur gæta hlutleysis í málinu. Utanríkisráðherra, og hans fólk, eigi að einbeita sér að því að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja. Afstaða til deiluefna sem tengjast Rússum eigi að ráðast af þeim.
Þetta er nokkuð merkileg greining hjá Gunnþóri, á utanríkispólitík Íslands. Bandaríkjamenn, Evrópusambandið, NATO, og raunar flest þróuð ríki heimsins, hafa tekið saman höndum um að beita Rússa viðskiptaþvingunum vegna beitingu hernaðar gagnvart fullvalda ríki, þvert á alþjóðalög. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sagt Vladímir Pútín, forseta Rússlands, veruleikafirrtan og hættulegan mann. Undir það hafa fleiri þjóðarleiðtogar tekið.
Nú er ekki gott að segja, hvað hefur farið á milli þjóðarleiðtoga heimsins á persónulegum fundum þeirra, en einhverra hluta vegna eru flest þróuð ríki heimsins, í gegnum alþjóðasamstarf, að beita Rússa þvingunum og þeim er dauðans alvara. Eitt liggur fyrir. Það er að óbreyttir borgarar hafa látið lífið í átökum þar sem rússnesk stjórnvöld hafa verið að beita mætti sínum með hernaði.
Gunnþór verður að horfast í augu við þessa stöðu með öðrum gleraugum en þeim, sem aðeins gefa sýn út frá hagsmunum Síldarvinnslunnar. Þrátt fyrir að efnahagur Síldarvinnslunnar sé glæsilegur, og að fyrirtækið hafi verið vel rekið áratugum saman, þá yrði það mikill pólitískur aumingjaskapur að hálfu Íslands, að nálgast stöðuna í Rússlandi - þar sem miklu meiri hagsmunir eru undir heldur en makrílviðskipti við íslensk fyrirtæki - út frá öðru en utanríkispólitísku mati, byggt á hagsmunum heildarinnar.
Í sjálfu sér er það ákveðið sjónarmið, að hugsa alltaf bara um eigin hag. En í utanríkispólitísku samstarfi, sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur talað ítrekað fyrir þegar kemur að stöðu mála í Úkraínu, þá er útgangspunkturinn sá að taka afstöðu til mála út frá hagsmunum heildarinnar.
Gunnþór mætti alveg gefa öðrum hagsmunum en þeim sem tengjast Síldarvinnslunni meiri gaum.