Gústaf Adolf Níelsson, segir að opið bréf sem hann skrifaði til félags múslima í Morgunblaðið í haust, þar sem hann spurðist fyrir um fjármögnun moskubyggingar á Íslandi, hafi vakið athygli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík. Í kjölfarið hafi honum verið boðið að gerast varamaður flokksins í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.
Í viðtali við DV í dag segir Gústaf: "Hún hafði samband við mig um miðjan desember og bar þetta undir mig. Ég spurði hvort hún gerði sér grein fyrir því að ég væri í Sjálfstæðisflokknum, en tók samt fram að ég væri flugvallarvinur. Ég benti henni á að þetta myndi líklega ekki falla í góðan jarðveg hjá öllum í Framsóknarflokknum. Hún sagði að henni væri nokk sama um það því henni þætti þessi skrif mín málefnaleg.“
Vill ekki fjölmenningarsamfélag
Gústaf, sem hefur skrifað töluvert um innflytjendamál og samkynhneigða á opinberum vettvangi, hefur þótt mjög umdeildur. Í viðtalinu segist hann þó standa við öll þau orð sem hann hafi látið falla og að skoðanir hans hafi ekkert breyst. Hann sé til að mynda mótfallinn því að samkynhneigðir fái að gifta sig í Þjóðkirkjunni og hann ekki að Ísland verði fjölmenningarsamfélag. Trúin geri hins vegar ekki ráð fyrir því að samkynhneigðir giftist í kirkju. "Þetta er guðfræðilegur ómöguleiki [...]Og af hverju geta samkynhneigðir ekki bara stofnað sína eigin kirkju og látið Þjóðkirkjun eiga sig?"
Ekki trúaður, ekki á móti hommum og ekki rasisti
Gústaf segist ekki vera trúaður og hann sækir ekki kirkju. Hann sé hins vegar mikill áhugamaður um trúarbrögð og kristna siðfræði. Hann segist ekki á móti hinsegin fólki, það megi vera þannig ef það vilji.„Maður getur ekki verið á móti samkynhneigðum, ekki frekar en fötluðum. Það er alls konar fólk á meðal okkar“.
Hann segist heldur ekki vera rasisti eða á móti útlendingum. „Þegar ég segi að við eigum að móta skynsama innflytjendastefnu þá er það sagt til marks um að ég sé haldin útlendingafóbíu. Ég er það ekki, en við verðum að hafa einhverja stefnu.
Núna er til dæmis verið að flytja inn homma og lesbíur frá Mið-Austurlöndum, á vegum ríkisstjórnarinnar. Þá er verið að velja fólk til að koma hingað á grundvelli kynhneigðar. Annaðhvort ertu flóttamaður eða ekki flóttamaður, það er ekki hægt að velja úr flóttamönnum[...] en ég geri enga athugasemd við það þegar fólk kemur hingað í góðum og lögmætum tilgangi. Ef það vill aðlagast landinu og siðum þess, læra tungumálið, vinna og sjá fyrir sér, þá er það velkomið. En ég vil alls ekki vera gleiður á því að úthluta fólki íslenskum ríkisborgararétti. Ég geri þá kröfu að sá sem fær íslenskan ríkisborgararétt geti að minnsta kosti talað eitthvað í málinu, skrifað og hugsað á íslensku. Mér finnst ótækt að veita fólki íslenskan ríkisborgararétt sem skilur ekkert í tungumálinu og veit ekkert hvað fram fer. Við getum heldur ekki flutt inn fólk á grundvelli einhverrar vorkunnsemi“.