„Ég býst ekki við neinu frá stjórnvöldum. Í fyrsta skipti, á þeim aldarfjórðungi sem ég hef komið að kjarasamningsviðræðum, þá er enginn að horfa til stjórnvalda með vonir um mikilvægt framlag þaðan,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands.
Ólíkir hagsmunir
Hann segir ólíka hagsmuni vegast á í kjarasamningsviðræðum, og erfitt sé að segja til um í hvaða farveg framhaldið muni fara. „Eru ekki stjórnarmenn hjá VÍS með 350 þúsund á mánuði? Og stjórnarformaðurinn með 600 þúsund? Ég veit ekki hvað stjórnirnar hittast oft, en það ætti ekki að koma neinum á óvart að verkafólk og fólkið á gólfinu, vilji fá betri laun, þegar svona er staðið að málum,“ segir Gylfi. Hann segir það vera veikburða röksemdarfærslu, að stjórnendur í atvinnulífinu séu með margföld laun fólksins á gólfinu, og einkennilega lítil umræða fari fram um það hvort þetta hafi skilað einhverjum árangri. „Satt best að segja, hélt ég nú að þetta fólk hefði velt því fyrir sér hver árangurinn hefði verið af þessu skipulagi, hér fyrir nokkrum árum,“ segir Gylfi. Hann segir þær þjóðir, þar sem þessum hlutum er haldið í hófi, það er launamun á milli fólksins á gólfinu og stjórnarmanna og stjórnenda, vera líklegri til þess að ná efnahagslegum árangri fyrir allar stéttir.
Þrjátíu þúsund manns krefjast 20 til 30 prósent hækkun
Stéttarfélög iðnaðarmanna, Rafiðnaðarsambandið, Samiðn og fleiri sérsambönd iðnaðarmanna hér á landi, krefjast þess að laun þeirra verði hækkuð um 20 prósent, en krafa þess efnis var kynnt fyrir Samtökum atvinnulífsins á föstudaginn. Um átján þúsund manns tilheyra þessum hópi. Starfsgreinasambandið (SGS) hefur formlega slitið viðræðum við Samtök atvinnulífsins, og er búist við að verkfallsaðgerðir hefjist í kringum 10. apríl, eins og Kjarninn greindi frá. Innan SGS eru um tólf þúsund manns, og því ná kröfur þessara stéttarfélaga til um þrjátíu þúsund manns. Meginkrafan þar er að hækka lægstu laun úr 214 þúsund í 300 þúsund.
Samtök atvinnulífsins telja kröfurnar sem fram hafa komið hjá verkalýðshreyfingunni vera óraunhæfar, og hafa ekki viljað ræða samninga á grundvelli þeirra tillagna sem fram hafa komið. Viðræðurnar eru því nær alveg stál í stál í augnablikinu, og lítið sem bendir til þess að það sé að breytast.
Ekkert sem bendir til kröfu um stöðugleika
Gylfi segir að samningar sem ríki og sveitarfélög hafa gert að undanförnu, meðal annars við kennarastéttir á öllum skólastigum og síðan nú síðast við lækna, þar sem samið var um 20 til 30 prósent launahækkun, hafi skapað væntingar sem kjarasamningsviðræðurnar miðast við að miklu leyti. „Það er ekkert óeðlilegt að kjarabaráttan taki við af þessum samningum. Fólk spyr eðlilega, hvort það ekki að fá sömu hækkanir og stjórnvöld eru að semja um við sitt starfsfólk,“ segir Gylfi. Hann segir enn fremur að krafan um að það náist að koma á stöðugleika í efnahagslífinu, sem allar stéttir njóti góðs af, sé í rauninni ekki fyrir hendi í viðræðunum í augnablikinu. Stjórnvöld gefi þar tóninn. „Það er engan sáttatón að finna þar, og aðgerðir stjórnvalda hafa heldur ekki einkennst af því að stöðugleiki sé eitthvert markmið. Þvert á móti,“ segir Gylfi.