Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir Árna Stefán Jónsson, formann SFR stéttarfélags "stinga hausnum í sandinn". Ástæðan eru ummæli Árna Stefáns í fréttum RÚV í gær þar sem hann sagði vandamálið varðandi verðbólgu og óstöðugleika ekki vera kröfur opinberra starfsmanna heldur "það sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ gerðu í sínum kjarasamningum, þeir settu fram ákvæði sem tekur núna gildi í febrúar 2016, sem efnislega hljóðar upp á það að þeir geta sagt upp sínum samningum til þess að knýja fram þær hækkanir sem við höfum fengið og þá fer það væntanlega eitthvað út í verðlagið og þá fara hlutirnir af stað".
Gylfi tjáir sig um ummæli Árna Stefáns í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Þar segir hann að krafa "Árna Stefáns og félaga er einmitt að fá sömu hækkanir og BHM og FÍH og læknar og kennarar hafa fengið sem í sjálfu sér er skiljanlegt. Það er hins vegar algerlega óskiljanlegt að honum skuli finnast ranglæti heimsins felast í því að aðildarfélög ASÍ hafi einmitt óttast að nákvæmlega þessi stað gæti komið upp sem kom upp á síðasta ári að ríkið semdi um miklu meiri hækkanir fyrir þá sem á eftir kæmu. Er nema eðlilegt að aðildarfélög ASÍ hafi sett umrætt ákvæði í sína samninga!"
Verkfall félagsmanna SFR og þeirra sem eru í Sjúkraliðafélagi Íslands efst að óbreyttu á morgun, 15. október. Um verður að ræða tveggja sólarhringa verkfall. Þau munu síðan halda áfram annað veifið til 16. nóvember náist ekki að semja. Eftir það hefst ótímabundin vinnustöðvun á öllum stofnunum ríkisins.
Stjórn SFR sendi frá sér ályktun í morgun þar sem hún lýsti verulegum áhyggjum yfir "því ófremdarástandi sem nú ríkir vegna aðgerðarleysis stjórnvalda í kjaradeilu félagsmanna SFR stéttarfélags, Sjúkraliðafélags Íslands og Landsambands lögreglumanna við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins.".