„Ef ekki tekst að lægja öldurnar á vinnumarkaði á næstu vikum með bættri upplýsingagjöf er mikilvægt að ríkisstjórn stígi fram og móti tillögur í samvinnu við aðila vinnumarkaðar, bæði stéttarfélög launafólks og atvinnurekendur, tillögur sem miða að því að þorra launafólks finnist ekki á sig hallað.“ Þetta skrifar Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, í vikuritið Vísbendingu, sem kom út í dag.
Gylfi segir að nú sem endranær verði ríkisstjórnin að sýna skilning á kjörum og hagsmunum launafólks. Hún verði þó jafnframt að útskýra mikilvægi þeirra almannagæða sem felist í stöðugu verðlagi fyrir lífskjör og hagvöxt til lengri tíma. „Í slíkum samningum getur ríkisvald boðið önnur almannagæði, svo sem breytingar á skattkerfi og ríkisútgjöldum eða kerfisbreytingar, í skiptum fyrir verðstöðugleikann.“
Hann nefnir húsnæðismál sérstaklega sem möguleika í stöðunni. „Kannski væri upplagt að ríkisstjórnin beitti sér fyrir átaki í húsnæðismálum sem miðaði að því að lækka verð á minni íbúðum.“
Freistast til að gera meiri kaupkröfur
Gylfi fjallar um kjarasamningana og ósætti á vinnumarkaði í grein sinni í Vísbendingu. Hann segir mikilvægt að upplýsingum sé safnað og komið í veg fyrir að óánægja verði til fyrir misskilning. Hagstjórn hafi gengið vel undanfarin misseri „þótt leynt fari“. Óánægjuraddir heyrist þó um fjármagnshöft og launaþróun og það sé einmitt þetta tvennt sem skapi mestu hættuna.
Þá segir Gylfi að ef félagsmönnum einstakra stéttarfélaga finnist tekjuskipting í samfélaginu óréttlát geti þeir freistast til þess að gera meiri kaupkröfur en ella óháð atvinnustigi og skeyti litlu um áhrif launahækkana á verðbólgu. Hið sama geti gerst ef þeim finnist ríkisstjórn ekki hafa unnið að hagsmunum þeirra. „Það sama getur gerst ef einstakir hópar fá meiri launahækkanir en aðrir vegna sterkrar samningsaðstöðu. Nefna má nýleg dæmi um flugmenn, framhaldsskólakennara eða lækna.“
Hagstjórnarvandinn felist í því að þótt hverju stéttarfélagi finnist réttlætanlegt að fara fram með miklar launakröfur sé það ekki skynsamlegt fyrir þjóðfélagið í heild. Ef öll félög fari fram með miklar launakröfur og fái þær samþykktar „verður það til þess að verðlag hækkar, gengi krónunnar lækkar, höfuðstóll verðtryggðra lána hækkar, atvinna og efnahagsumsvif geta jafnvel minnkað og kaupmáttur getur dregist saman.“
Til lengri tíma litið, segir Gylfi að það skipti höfuðmáli að stöðugleiki sé í efnahagsmálum, verðlag stöðugt og gengi krónunnar sömuleiðis. „Frjáls utanríkisviðskipti, frjálst flæði fjármagns, einkarekstur, aðskilnaður banka og viðskiptavina þeirra, varkárni í rekstri fyrirtækja, skýrt lagaumhverfi og vel varinn eignaréttur í stöðugu efnahagsumhverfi þar sem opinber afskipti af fyrirtækjarekstri eru í lágmarki skila bestum lífskjörum til lengri tíma litið. Næsta verkefni verður að reyna að ná þessu markmiði eftir að fjármagnshöft hafa verið losuð og spákaupmenn taka að versla með krónuna að nýju.“