Flestir þeirra sem sóttu um að fá niðurgreiðslu á höfuðstól verðtryggðs húsnæðisláns geta nú séð hversu mikið fé fellur þeim í skaut og samþykkt útreikninga ef þeir virðast stemma. Til að gera það getur viðkomandi farið inn á vefinn leidretting.is. Fólk hefur þrjá mánuði til að samþykkja útreikninganna.
Kjarninn greindi frá því í gær að samkomulag hafi loks náðst síðastliinn föstudag við viðskiptabankana þrjá um aðferðarfræðina sem beita á við útreikninga á virði þeirra húsnæðislána sem á að lækka höfuðstólinn á. Samkomulagið var nauðsynlegur liður í því að hægt yrði að birta endanlegar niðurstöður útreikninga.
Alls sóttu um 105 þúsund manns um niðurgreiðslu á verðtryggðum húsnæðislánum. Enn á eftir að afgreiða um sjö þúsund umsóknir samkvæmt frétt RÚV. Auk þess hafa um 30 þúsund manns sótt um að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða niður lán eða spara fyrir húsnæðiskaupum. Velji fólk að gera það þarf ekki að greiða skatt af séreignarsparnaðinum.