Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag eru áætlanir stjórnvalda um að breyta virðisaukaskattskerfinu, með þeim hætti að skattur á matvæli hækki, gagnrýndar harkalega. Gagnrýnin vekur athygli enda áætlunin komin frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið hefur sögulega fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum í ritstjórnarskrifum, er ritstýrt af fyrrum formanni flokksins og er óvant að gagnrýna harðlega helstu stefnumál hans.
Rugl og dularfullar mótvægisaðgerðir
Höfundur Reykjavíkurbréfsins er að öllum líkindum Davíð Oddsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins. Í bréfi dagsins segir að ríkisstjórnin ætli nú „að keyra í gegn á fáum vikum matarskatt á lægst launaða fólkið í landinu, hvað sem tautar og raular. Eini ávinningurinn sem hægt er hugsanlega að sjá af því er að fá hrós bak við luktar dyr frá ótryggum embættismönnum fyrir að hafa einfaldað virðisaukaskattskerfið með því að fækka skattþrepum þess úr tveimur ofan í tvö. Í stað þess að hætta við ruglið eru boðaðar dularfullar „mótvægisaðgerðir“ sem er svo sannarlega ekki uppskrift að því að „einfalda kerfið“.
Bjarni Benediktsson sagði í samtali við RÚV í gær að á næstu dögum verði farið yfir og metið hvort mótvægisaðgerðir með fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á matvæli dugi. Hann sé tilbúinn að ræða frekari aðgerðir ef þær sem kynntar hafa verið duga ekki.
Framsókn tvístígandi
Breytingar á virðisaukaskattskerfinu, lækkun efra þreps þess og hækkun þess lægra, var ein stærsta kerfisbreytingin sem kynnt var í öðru fjárlágafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, sem kynnt var í september. Tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts eiga að hækka um 20 milljarða króna á milli ára í kjölfar breytinganna og samhliða bættri efnahagslegri stöðu þjóðarinnar.
Um ellefu milljarðar króna eiga að koma til vegna þess að lægra þrep skattsins, sem leggst meðal annars á matvæli og er því kallaður matarskattur, verður hækkaður úr sjö prósentum í tólf.
Um ellefu milljarðar króna eiga að koma til vegna þess að lægra þrep skattsins, sem leggst meðal annars á matvæli og er því kallaður matarskattur, verður hækkaður úr sjö prósentum í tólf. Samkvæmt úttekt ASÍ eyðir tekjulægrði hluti þjóðarinnar um það bil tvöfalt stærri hluta af launum sínum í matarinnkaup en þeir sem eru tekjuhærri. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum upp á einn milljarð króna í formi barnabóta til að milda þetta högg á þá tekjulægri.
Þingmenn Framsóknarflokksins virtust ekki alveg sáttir með þessar breytingartillögur og samþykktu fjárlögin með fyrirvara vegna breytinganna á matarskattinum.