Í dómi Hæstaréttar Íslands þar sem Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, einn stærsti hluthafi Kaupþings, voru sakfelldir fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða, er farið hörðum orðum um athæfi hinna dæmdu.
Með dómi sínum staðfesti Hæstiréttur dóm Hæstaréttar Reykjavíkur yfir fjórmenningunum, en auk þess þyngdi Hæstiréttur fangelsisdóma yfir Ólafi og Magnúsi, og mildaði dóminn yfir Sigurði Einarssyni. Ólafur og Magnús voru dæmdir til fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í dag, en Ólafur hlaut þriggja og hálfs árs dóm í Héraðsdómi og Magnús þrjú ár. Þá var fimm ára fangelsisdómur Héraðsdóms yfir Sigurði mildaður um eitt ár.
Engin dæmi um jafn alvarleg efnahagsbrot
Í dómi Hæstaréttar um ákvörðun refsingar segir: „Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin samkvæmt III. og IV. kafla ákæru beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“
Ofangreindur III. kafli ákæru sérstaks saksóknara á hendur fjórmenningunum laut að meintri markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi, með því að láta ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir hefði keypt 5,01 prósent hlutafjár í bankanum. Þá laut IV. kafli ákærunnar að meintri markaðsmisnotkun fjórmenninganna með því að hafa í fréttatilkynningu sem birt var á vef Kauhallar Íslands og í fjölmiðlum gefið misvísandi upplýsingar og vísbendingar um að hlutabréfaviðskiptin.
„Kjarninn í háttsemi ákærðu fólst í þeim brotum, sem III. kafli ákærunnar snýr að, en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum. Verður og að líta til þess að af broti samkvæmt III. kafla ákæru hafði ákærði Ólafur óbeina fjárhagslega hagsmuni gegnum félag, sem eins og fyrr greinir var næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka hf. Ákærðu, sem ekki hafa sætt refsingu fyrr, eiga sér engar málsbætur.“