Hæstiréttur tekur afstöðu til þess í dómi sínum hvort eftirlýsing embættis sérstaks saksóknara, á vegum alþjóðalögreglunnar Interpol, hafi verið þannig úr garði gerð að hún hafi verið ástæða til frávísunar ákæru á hendur Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings. Hæstiréttur hafnar því alfarið, eins og öllum öðrum ástæðum sem Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri, Magnús Guðmundsson, fv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem var stærsti einstaklingshluthafi Kaupþings fyrir hrun hans, með tæplega 10 prósent eignarhlut, færðu á borð til þess að freista þess að sanna sakleysi sitt eða fá málinu vísað frá dómi.
Þeir voru allir dæmdir sekir í Al-Thani málinu í Hæstarétti í gær. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur fjögur ár og Magnús fjögur og hálft ár.
Sigurður var eftirlýstur af Interpol í maí 2010. Sigurður er búsettur í Bretlandi en sérstakur saksóknari ákvað að gefa út handtökuskipun á hendur Sigurðar eftir að hann sinnti ekki kalli sérstaks saksóknara um að mæta í yfirheyrslu. Sigurður þrætti fyrir þetta raunar, og sagði eftirlýsinguna hafa verið tilefnislausa og að hún hefði valdið honum miklu tjóni. Vildi hann að máli gegn honum yrði vísað frá, en allt kom fyrir ekki.
Í dómnum, þar sem fjallað er um kröfur um frávísun frá Sigurði vegna eftirlýsingar hjá Interpol, segir orðrétt:
„Ákærði Sigurður hefur reist kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi sérstaklega á því fyrir sitt leyti að lögregla hafi í nánar tilgreindum atriðum staðið ranglega að verki þegar hún leitaði eftir og fékk því framgengt að alþjóðalögreglan gæfi út eftirlýsingu á hendur þessum ákærða 11. maí 2010 þegar hann var staddur í Bretlandi, þar sem hann átti heimili. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafa röksemdir, sem tengjast framangreindu, ekki verið færðar fram með þeim hætti að unnt sé að sjá hvernig hugsanlegir annmarkar á framkvæmd áðurnefndrar eftirlýsingar gagnvart ákærða Sigurði gætu leitt til þess að vísa ætti máli þessu frá héraðsdómi að því er hann varðar. Verður því ekki orðið við aðalkröfu hans á þessum grunni.“
Hæstiréttur tekur því með engu undir þessa kröfu í dómi sínum, og finnur ekki að eftirlýsingu Interpol.