Dómsuppsaga varðandi ómerkingarkröfu ríkissaksóknara í Aurum-málinu svokallaða fer fram í Hæstarétti í dag, nánar tiltekið klukkan 16:00.
Í málinu eru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, sakaðir um umboðssvik og þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi bankans, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis, voru ákærðir fyrir hlutdeild í þeim meintu brotum.
Málið snýst um sex milljarða króna lán sem Glitnir veitti félaginu FS38 til kaupa á hlut Fons, félags í eigu Pálma Haraldssonar, í skartgripakeðjunni Aurum Holdings. Jón Ásgeir er sakaður um að hafa beitt stjórnendur Glitnis þrýstingi til að veita umrætt lán, og hann hafi sjálfur fengið einn milljarð króna af upphæðinni í sinn hlut.
Fjölskipaður Héraðsdómur sýknaði sakborningana þann 5. júní síðastliðinn. Ríkissaksóknari áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar og krafðist þess að sýknudómurinn yrði ómerktur sökum þess að Sverrir Ólafsson, fjármálaverkfræðingur, hafi verið vanhæfur til að vera meðdómari í málinu. Umræddur Sverrir er bróðir Ólafs Ólafssonar, kenndur við Samskip, sem hlaut þungan fangelsisdóm í Al-Thani málinu.
Aðalmeðferð í Hæstarétti vegna Aurum-málsins einskorðaðist við ómerkingarkröfu ríkissaksóknara.