Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms Austurlands yfir lögreglumanni sem ákærður var fyrir vörslu barnakláms. Í dómnum er ákæruvaldið gagnrýnt fyrir óþarfa seinagang í málinu.
Ellefu myndskeið sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt fundust á utanáliggjandi hörðum disk í eigu lögreglumannsins sem haldlagður var við húsleit sem framkvæmd var á heimili hans í október árið 2012, í kjölfar kæru á hendur honum þar sem hann var sakaður um kynferðisbrot gegn barni. Rannsókn þess máls leiddi hins vegar ekki til ákæru.
Vildi aldrei kannast við myndskeiðin
Myndskeiðin sem um ræðir fundust í sérstakri möppu sem bar heitið „Young“ en á tölvudisk ákærða var að finna mikið magn klámefnis. Maðurinn neitaði ávallt að hafa haft vitneskju um efnið, það hafi slæðst með öðru klámefni sem hann hafi niðurhalað af torrent-síðunni The Pirate Bay. Auk harða disksins lagði lögregla hald á þrjár tölvur sem fundust á heimili mannsins.
Héraðsdómur mat vitnisburð ákærða trúverðugan og taldi að ákæruvaldið hefði ekki tekist að sanna að um ásetning hafi verið að ræða og sýknaði því lögreglumanninn af ákæru um vörslu barnakláms.
Sýknudómurinn í héraðsdómi var kveðinn upp 20. desember árið 2013, en ákæruvaldið áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar þann 3. janúar 2014. Tæpum níu mánuðum síðar, eða þann 23. september 2014, krafðist ákæruvaldið að dómkvaddur yrði sérfróður maður til að svara ákveðnum spurningum er vörðuðu myndskeiðin ellefu.
Engar vísbendingar um að myndskeiðin hafi verið opnuð
Á meðal þeirra spurninga sem dómkvadda matsmanninum var ætlað að svara var hvort skrárnar hefðu einhvern tímann verið opnaðar, það er spilaðar, á fyrrgreindum hörðum diski. Í svari matsmannsins kemur fram að ekki hafi fundist vísbendingar á tölvudisknum né tölvunum þremur sem haldlagðar voru á heimili hins ákærða um að skrárnar hefðu verið opnaðar.
Hæstarétti þótti vitnisburður matsmannsins renna enn frekari stoðum undir sýknudóm héraðsdóms, að maðurinn hafi ekki náð sér í barnaklámið af ásetningi. Þá segir í dómi Hæstaréttar: „Eins og áður greinir var þess krafist af hálfu ákæruvaldsins 23. september 2014 að dómkvaddur yrði matsmaður og hefur sú töf sem á því varð ekki verið skýrð. Þessi óþarfa dráttur á meðferð málsins fyrir Hæstarétti er aðfinnsluverður.“