Vinnumiðlunin Eures á Íslandi. sem undanfarin ár hefur staðið fyrir kynningum á lausum störfum í Noregi fyrir Íslendinga, hefur ákveðið að hætta kynningunum í bili. Í Morgunblaðinu er haft eftir Þóru Ágústsdóttur, verkefnastjóra hjá Eures, að bætt staða á íslenskum vinnumarkaði geri það að verkum að ekki sé lengur talin eftirspurn eftir kynningunum. Fjármunirnir sem fóru í þær séu nú frekar notaðir til að þjónusta íslenska atvinnurekendur við að ráða starfsfólk að utan.
Þúsundir fóru til Noregs eftir hrun
Í og í kjölfar bankahrunsins 2008 misstu fjölmargir Íslendingar atvinnu sína. Þegar Eures hélt starfakynningu hérlendis í nóvember 2008 mættu til að mynda tvö þúsund manns á hana, en þar voru m.a. kynnt störf í Noregi.
Straumur Íslendinga til Noregs hefur verið mjög mikill síðan þá. Samkvæmt hagtölum fluttust til að mynda 278 Íslendingar til Noregs árið 2008 en yfir 1.500 árið 2011. Samtals voru brottfluttir íslenskir ríkisborgarar til Noregs umfram aðflutta 4.429 frá byrjun árs 2009 og til loka árs 2014.
Lágt heimsmarkaðsverð á olíu undanfarin ár hefur hins vegar haft mikil áhrif á atvinnulífið í Noregi og störfum tengdum olíugeiranum þar í landi fækkað mikið. Útlit er fyrir að atvinnuleysi í Noregi fari áfram vaxandi. Á Íslandi er hins vegar farið að vanta vinnuafl, sérstaklega í ferðamanna- og byggingageiranum. Því eru íslensk fyrirtæki í auknum mæli farin að flytja inn vinnuafl í stað þess að Íslendingar séu að flytja til annarra landa til að vinna.