Greiningardeild Arion banka óttast að hækkun húsaleigubóta muni að mestu fara út í leiguverð og breytingarnar verði þar með eigendum húsnæðis til hagsbóta en síður leigjendum. Í Markaðspunktum greiningardeildarinnar í dag er því fagnað að stjórnvöld sýni áhuga á umbótum á húsnæðismarkaði. „Þó líst okkur misvel á tillögurnar og við óttumst að þær sem snúa að hækkun bóta og styrkja til íbúðakaupa muni lítið gagnast þeim sem á að hjálpa en fyrst og fremst birtast í hærra verði sem kyndir frekar undir verðbólgu.“
Greiningardeildin listar fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda á húsnæðismarkaði og tekur fram að enn liggi ekki fyrir nákvæmar útfærslur eða frumvörp ríkisstjórnarinnar. Fyrirhugað er uppbygging félagslegs íbúðakerfis, endurskoðun byggingareglugerða í því skyni að lækka byggingarkostnað, hækkun húsaleigubóta og stuðningur við kaup á fyrstu fasteign.
„Fjórða aðgerðin er stuðningur við kaup á fyrstu íbúð, sem í sjálfu sér er góð hugmynd, en skattaafslættirnir sem í stuðningnum felst hafa þó að einhverju leyti svipuð áhrif og hækkun bóta,“ segir í Markaðspunktum um áætlanir um stuðningsaðgerðir við kaup á fyrstu fasteign. „Einnig setjum við spurningarmerki við það hvort skynsamlegt sé að færa séreignasparnað yfir í steypu. Tilgangur slíks sparnaðar er að eiga eitthvað fyrir efri árin, sem er alls ekki að fullu samrýmanlegt því að eiga þak yfir höfuðið.“
Þá telur greiningardeildin það afar varhugavert að horfa frá greiðslumati við ákvörðun um lánveitingu, líkt og lagt hefur verið til. Bent er á nýlega reynslu Bandaríkjamanna, þar sem auðvelt aðgengi að lánsfé setti húsnæðismarkaðinn á hliðina. „Þau skuldavandræði sem sköpuðust í kjölfar fjármálakreppunnar má að miklu leyti rekja til of mikillar skuldsetningar einstaklinga og heimila. Veitt voru húsnæðislán þrátt fyrir takmarkaða getu fólks til þess að standa við afborganir og voru þau jafnvel veitt óháð tekjum, atvinnu og eignum (oft kölluð NINJA lán, þar sem NINJA stendur fyrir no income, no job, no assets), sem setti húsnæðismarkaðinn í Bandaríkjunum á hliðina og kom alþjóðlegu fjármálakreppunni af stað. Við vonum því að aðgerðirnar muni ekki beint eða óbeint auka skuldsetningu heimila umfram það sem er æskilegt.“