Um 46 prósent Íslendinga telja að þeir hafi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu eða góðu verði, samkvæmt vísitölu SPI (Social Progress Index). Eru Indverjar og íbúar Mósambík með sama hlutfall, en efst á listanum eru íbúar í Bútan (89 prósent), Tælandi (87 prósent) og Úsbekistan (80 prósent).
Ísland er í 66. til 68. sæti af 133 þjóðum, ásamt Indlandi og Mósambík, en Kúba er í neðsta sæti, en fjórtán prósent íbúa þar í landi telja sig hafa aðgang að húsnæði á góðu eða viðráðanlegu verði. Af Norðurlandaþjóðunum eru Danir efstir á listanum, í 8. sæti en íbúar Bandaríkjanna eru í 9. sæti með 69 prósent.
SPI er nýleg vísitala sem segir til um hvar þjóðir standa á ýmsum mælikvörðum, öðrum en hagrænum þáttum beint. Er þar meðal annars horft til menntamála og ýmissa annarra þátta sem snúa að innviðum og grunnuppbyggingu samfélaga. Ráðstefna verður um þessa vísitölu, og ýmis atriði sem eru í henni, í Arion banka á morgun klukkan þrjú.