Hafnarfjarðarbær hafnar því alfarið að hafa kannað við hverja kjörnir fulltrúar og aðrir starfsmenn sveitarfélagsins hafi talað í síma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. Bærinn segist hafa gætt að reglum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að bæjarfulltrúar minnihlutans í bæjarráði Hafnarfjarðar hafi sent Persónuvernd kvörtun vegna þess að meirihlutinn hafi hnýst í símtalaskrár þeirra án vitundar og samþykkis. Þar kom fram að bæjaryfirvöld hafi óskað eftir og fengið lista yfir símtöl kjörinna fulltrúa og skoðað þau við rannsókn máls. Það hafi verið gert án vitneskju og þar af leiðandi án samþykkis bæjarfulltrúanna.
Samkvæmt tilkynningu bæjarins um málið barst bænum kvörtun, sem fól í sér ásakanir gagnvart ótilgreindum starfsmönnum bæjarins, og fram kom að starfsmaður undirstofnunar hafi verið boðaður á fund í gegnum síma sem var skráður á bæinn. Engar upplýsingar um fundinn hafi fundist hjá bænum og nauðsynlegt hafi verið að kanna hvort og þá hver hafi hringt í þennan starfsmann.
Bærinn sendi Vodafone beiðni „þar sem óskað var upplýsinga um hvort hringt hefði verið í þetta tiltekna númer á sex klukkustunda tímabili. Símafyrirtækið svaraði beiðninni með því að afhenda yfirlit yfir öll símanúmer sem hringt hafði verið í.“
Niðurstaðan hafi verið að ekki hafi verið hringt í tiltekið símanúmer og því hafi öllum gögnum frá símafyrirtækinu verið eytt.