Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur nú að gerð útboðslýsinga til að bjóða út ákveðna þætti varðandi hagkvæmnisathugun á lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlandseyja. Þetta kom fram í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á fyrirspurnatíma á Alþingi í síðustu viku.
Þverpólitískur ráðgjafahópur um raforkustreng til til Evrópu, sem skipaður var í júní 2012 af Katrínu Júlíusdóttur þáverandi iðnaðarráðherra, var falið að kanna hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu. Í niðurstöðum og tilögum hópsins, sem kynntar voru í lok júní í fyrra, var hópurinn samdóma um að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni verkefnisins. Hópurinn tók því ekki afstöðu til framkvæmdarinnar, en lagði til að ráðist yrði í frekari rannsóknir á arðsemi strengs, sem og umhverfisáhrifum og hafnar yrðu viðræður við Breta um málið.
Ráðgjafahópur lagði til frekari athugun í sjö liðum
Í skýrslu hópsins gerir hann sjö tillögur til ráðherra. Að áfram verði unnið að greiningu á þjóðhagslegri hagkvæmni verkefnisins, að greindar verði sviðsmyndir orkuöflunar og virkjanaraðar, að Landsneti í samstarfi við Landsvirkjun, og ef til vill fleiri, verði veitt heimild til að hefja viðræður við rekstraraðila flutningskerfis í Bretlandi og eftir atvikum bresku orkustofnunina, að ráðuneytið leiti leiða til að afla upplýsinga með það að markmiði að kanna með hvaða hætti sala á íslenskri orku gæti fallið undir breska löggjöf um ívilnanir fyrir endurnýjanlega orku, að skilgreind verði skilaleið auðlindarentu sem myndast kunni af raforkusölu um sæstreng, að metin verði áhrif eignarhalds á sæstrengnum með tilliti til afhendingaöryggis raforku innan lands, og að ráðuneytið kanni hvaða lögum og reglugerðum þurfi að breyta komi til þess að ráðist verði í lagningu sæstrengs til Evrópu.
Álit ráðgjafahópsins fór til meðferðar í atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Nefndir Alþingis voru sammála niðurstöðum ráðgjafahópsins og fólu iðnaðar- og viðskiptaráðherra að fylgja málinu eftir.
Engar formlegar samningaviðræður átt sér stað við Breta
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra fundaði með Michael Fallon, orkumálaráðherra Bretlands, í marsmánuði síðastliðnum. Sæstrengur á milli Íslands og Bretlandseyja var sérstaklega ræddur á fundinum, en bresk stjórnvöld hafa lýst yfir áhuga sínum á verkefninu til að gera hlut endurnýjanlegra orkugjafa þar í landi.
Í svari iðnaðar- og viðskiptaráðherra í fyrirspurnatíma Alþingis í síðustu viku kom fram að engar formlega samningaviðræður hafi átt sér stað við Breta. "Enda hef ég lýst því yfir að það sé ekki rétt að fara í samningaviðræður fyrr en við vitum um hvað við erum að fara að semja," sagði Ragnheiður Elín í ræðustól Alþingis.
Þá kom fram í svari ráðherra að ráðuneytið og undirstofnanir þess, svo sem Orkumálastofnun og Orkuspárnefnd, vinni nú að fjórum verkefnum sem lögð voru til grundvallar afstöðu til sæstrengs í skýrslu ráðgjafahópsins og skilgreind eru á verksviði ráðuneytisins. Þá sé þessa daganna verið að leggja lokahönd á útboðslýsingar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu svo hægt verði að bjóða út aðra þætti sem nefndir voru í skýrslunni.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur lýst því yfir að lagning sæstrengs gæti verið eitt stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar stæðu frammi fyrir. Fram hefur komið að rannsóknir á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Evrópu taki tvö til þrjú ár, og lagning hans geti tekið fjögur ári til viðbótar. Þá hefur kostnaður við lagningu sæstrengs verið metinn á um 300 milljarða króna.