Hagnaður Arion banka á fyrri helmingi árs 2015 nam 19,3 milljörðum króna, samanborið við 17,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2014. Afkoman á fyrri hluta árs markast mjög af óreglulegum liðum, segir í uppgjörstilkynningu frá bankanum. Skráning og sala bankans á fasteignafélaginu Reitum og alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber skipta þar mestu. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 8,7 milljörðum króna samanborið við 6 milljarða króna á sama tímabili 2014.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir afkomuna góða. „Á öðrum ársfjórðungi er það fyrst og fremst regluleg starfsemi bankans sem skilar góðri arðsemi. Þannig heldur starfsemi bankans áfram að styrkjast og jukust þóknanatekjur, sem eru fyrst og fremst frá fyrirtækjum, um 13% á milli ára. Við sjáum einnig áhrif traustara efnahagsástands og aukinna umsvifa í efnahagslífinu í auknum lánveitingaum til fyrirtækja, einkum til fasteignaframkvæmda, flutninga- og ferðaþjónustu og sjávarútvegs, sem er mjög jákvætt,“ segir hann í tilkynningu.
Arðsemi eigin fjár á fyrstu sex mánuðum ársins var 22,8 prósent samanborið við 23,4 prósent á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,8 prósentum á fyrri helmingi ársins samanborið við 8,1 prósent á sama tímabili 2014. Heildareignir námu 974,8 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014.
Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 23,2 prósent en var 26,3 prósent í árslok 2014. Lækkunin er einkum tilkomin vegna arðgreiðslu að fjárhæð 12,8 milljarðar króna og fyrirframgreiðslu á víkjandi lánum frá ríkinu að fjárhæð 20 milljarðar króna. Hlutfall eiginfjárþáttar A nam 21,8 prósentum og er óbreytt frá árslokum 2014.
Enn fremur segir Höskuldur í tilkynningu: „Standard & Poor´s hækkaði nýverið lánshæfismat Arion banka og er bankinn nú kominn í fjárfestingarflokk sem greiðir aðgengi að erlendum fjármagnsmörkuðum. Hækkun lánshæfismatsins kom í kjölfar þess að Standard & Poor´s hækkaði lánshæfismat íslenska ríkisins eftir að áform stjórnvalda um afnám fjármagnshafta voru kynnt. Það samkomulag sem gert var á milli fulltrúa stjórnvalda og hluta kröfuhafa kveður á um breytingar á efnahag Arion banka en það hefur legið fyrir um langt skeið að Arion banki er vel í stakk búinn til að takast við slíkar breytingar samhliða afnámi hafta.
Eftir að Arion banki fékk forræði yfir AFL - sparisjóði þá hefur það komið okkur á óvart hve alvarleg staða sjóðsins er. Óháðir ráðgjafar voru fengnir til að meta stóran hluta af lánasafni sjóðsins og hefur reynst nauðsynlegt að færa útlán sjóðsins enn frekar niður, eða um rúman 1,7 milljarð króna á fyrri helmingi ársins. Hins vegar eru aðrar virðisbreytingar lána samstæðunnar jákvæðar um sambærilega upphæð og því eru samanlögð áhrif virðisbreytinga útlána á uppgjör tímabilsins lítil.“