Hagnaður samvinnufélagsins KEA á síðasta ári nam 467 milljónum eftir skatta, samanborið við 227 milljónir króna árið áður. Þá námu tekjur félagsins tæpum 650 milljónum króna á árinu 2014 og hækkuðu um 250 milljónir á milli ára. Eigið fé KEA um síðustu áramót nam 5,3 milljörðum króna og heildareignir félagsins hljóðuðu þá upp á tæpa sex milljarða króna. Þetta kemur fram í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2014.
Þar kemur jafnframt fram að Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, hafi fengið greiddar rúmar 23,6 milljónir króna í laun og þóknanir á árinu 2014, eða 1,9 milljónir króna á mánuði. Samkvæmt ársskýrslu félagsins fyrir árið á undan, fékk Halldór röskar 18,2 milljónir króna í laun á árinu 2013. Laun framkvæmdastjóra KEA hækkuðu því um tæpar 5,4 milljónir króna á milli ára, eða um 450 þúsund krónur á mánuði að jafnaði.
Laun og þóknanir til stjórnar og stjórnenda KEA námu 32,1 milljón árið 2014, samanborið við 25,6 milljónir króna árið áður, og hækkuðu því um 6,5 milljónir eða um 25 prósent á milli ára.