Afkoma Landsbankans var jákvæð um 12,4 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi árs 2015, samanborið við 14,9 milljarða hagnað á sama tímabili árið 2014.
Í tilkynningu frá bankanum segir að áætlanir stjórnvalda um losun fjármagnshafta muni að öllum líkindum hafa töluverð áhrif á ýmsar stærðir í efnahagsreikningi bankans og að hann sé vel undir það búinn að mæta útflæði innlána í eigu slitabúanna sem óhjákvæmilega muni leiða af losun fjármagnshafta.
Hreinar vaxtatekjur voru 16,2 milljarðar króna og hækka um 6% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,4 milljörðum króna og hækka um 16% frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar útlána lækka um 9,6 milljarða króna á milli ára, en hagnaður af hlutabréfum hækkar á sama tíma um tæpa 5 milljarða. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,4% á ársgrundvelli samanborið við 12,8% á sama tímabili árið áður.
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming árs var birt í dag.
Steinþór Pálsson, bankastjóri segir í tilkynningu: „Afkoma Landsbankans fyrstu sex mánuði ársins er með ágætum, tekjusamsetningin betri en áður og fjárhagsstaðan er traust. Bankinn hefur notið góðs af hagstæðri þróun í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum og viðskipti hafa verið að aukast umtalsvert. Markaðshlutdeild bankans í útlána- og innlánastarfsemi og í markaðsviðskiptum heldur áfram að aukast. Samkvæmt mælingum Gallup í júní mælist Landsbankinn með mestu markaðshlutdeildina á einstaklingsmarkaði, eða 35,1% og hefur aldrei mælst hærri. Þetta sýnir að viðskiptavinir kunna að meta það sem Landsbankinn er að gera.“
Kostnaðarhlutfall lækkar umtalsvert, er 44,8% á fyrri helmingi ársins en var 54,9% á sama tímabili árið áður. Rekstrarkostnaður hækkar um 2% milli ára, en betri tekjusamsetning skýrir lækkun kostnaðarhlutfallsins. Innlán frá viðskiptavinum hafa aukist um 13% á árinu og útlán um 6% en hluta þess má rekja til samruna við Sparisjóð Vestmannaeyja í lok mars, en rekstraráhrifa hans gætir nú í uppgjöri bankans í fyrsta sinn. Á fyrri helmingi ársins námu ný íbúðalán 31,7 milljarði króna, en voru 21,5 milljarður króna á sama tíma á síðasta ári. Landsbankinn var með mesta markaðshlutdeild í bæði hlutabréfa- og skuldabréfaviðskiptum í Kauphöll á fyrri hluta árs.
Í lok mars sameinaðist Sparisjóður Vestmannaeyja við Landsbankann. Samþætting starfseminnar hefur gengið vel og leggur bankinn áherslu á að veita öfluga fjármálaþjónustu á starfssvæðum sparisjóðsins til hagsbóta fyrir íbúa og atvinnulíf, segir í uppgjörstilkynningu bankans.