Samanlagður hagnaður lögmannsstofanna Logos, Lex og BBA Legal nam samtals 1.072 milljónum króna á síðasta ári. Mestur var hagnaður Logos, alls um 616 milljónir króna og dróst saman frá fyrra ári um 102 milljónir króna. Hagnaður Lex á síðasta ári var 206 milljónir, nánast sá sami og á árinu áður, og hagnaður BBA Legal var 250 milljónir króna og jókst um 115 milljónir frá árinu 2013. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Lögmannstofurnar þrjár eru í hópi þeirra stærstu á Íslandi.
Logos er stærsta lögfræðistofa landsins og hefur verið í sérflokki þegar kemur að hagnaði. Hagnaður lögmannsstofunnar á árunum 2009 til 2014, á fimm ára tímabili, nemur alls um 3,5 milljörðum króna. Eigendur Logos eru sextán talsins. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að ef gert sé ráð fyrir jafnri dreifingu hagnaðar á síðasta ári þá nemi arðgreiðsla rúmlega 38 milljónum á hvern eigenda.
Sautján eigendur Lex fá greiddar um 12 milljónir hver ef hagnaðinum er greiddur út í formi arðs, eins og venjan að stærstum hluta er. Hluthafar BBA Legal eru síðan nokkuð færri, aðeins átta talsins, og eiga fjórir eigendur um 20 prósent hlut hver. Hlutdeild þessara hluthafa í hagnaði síðasta árs nemur um 50 milljónum króna.