Horfur í íslensku efnahagslífi eru bjartari en um langt árabil, samkvæmt nýrri spá hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Þar segir að framundan sé ágætur vöxtur landsframleiðslu, en spáin gerir ráð fyrir að hagvöxtur hér á landi verði 3,1 til 3,5 prósent fram til ársins 2016. Hagvöxtur verði 3,1 prósent á þessu ári, 3,3 prósent á næsta ári og 3,5 prósent árið 2016.
Skuldaniðurfellingar og skattkerfisbreytingar kynda undir einkaneyslu
Samkvæmt spánni verður vöxtur einkaneyslu á bilinu 3,4 til 4,3 prósent og vex í takt við batnandi stöðu heimilanna, en gert er ráð fyrir að kaupmáttur launa vaxi, skuldir lækki og væntingar almennings verði góðar. Samhliða þessu muni skuldaniðurfellingar stjórnvalda og skattkerfisbreytingar, ýta undir töluverðan vöxt einkaneyslunnar á tímabilinu, eða 3,7 prósent á ári að jafnaði.
Í hagspá ASÍ segir orðrétt. "Þannig eru forsendur fyrir frekari aukningu einkaneyslunnar á næstu misserum þar sem fyrrnefndir þættir, auk skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda, frekari heimilda til úttektar á séreignarsparnaði á þessu ári og afnáms vörugjalda, verða megindrifkraftar aukinnar neyslu. Þrátt fyrir ágætan vöxt undanfarið er einkaneyslan engu að síður mun minni en á
árunum 2007–2008 og á fyrri hluta þess árs var einkaneysla svipuð og á fyrri helmingi ársins 2005. Þannig er líklegt að heimilin nýti bættfjárhagslegt svigrúm til að auka neyslu á varanlegri neysluvörum á komandi árum en þá þróun má greina nú þegar í veltutölum smásölunnar."
Hagdeild ASÍ spáir því að einkaneysla aukist um 4,3 prósent á þrssu ári og búast megi við svipaðri aukningu út spátímann eða 3,5 prósent á næsta ári og 3,4 prósent árið 2016.
Þá gerir spáin ráð fyrir að fjárfestingar muni taka við sér og aukast á tímabilinu um 14,8 til 17,2 prósent, en gert er ráð fyrir að ráðist verði í byggingu þriggja nýrra kísilverksmiðja og íbúðarfjárfesting aukist um rúm 20 prósent á ári. Gangi spáin eftir fer hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu yfir 20 prósent á árinu 2016 og atvinnuleysi minnka.
Vaxandi verðbólga áhyggjuefni
ASÍ hefur þó áhyggjur af því að verðbólga fari vaxandi og spáir því að hún verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands næstu tvö árin og því megi búast við því að Seðlabankinn bregðist við með því að hækka vexti. Þá segir í spánni að þrátt fyrir að dragi úr atvinnuleysi og atvinnuþáttaka aukist, virðist meira atvinnuleysi en þekktist fyrir hrun vera að festa sig í sessi hér á landi. Spá ASÍ gerir ráð fyrir 3,7 prósenta atvinnuleysi á þessu ári, og 3,5 prósenta atvinnuleysi á ári að jafnaði út spátímann.
Þrátt fyrir batnandi stöðu eru ýmsir undirliggjandi veikleikar í íslenska hagkerfinu, sem brýnt er að taka á að mati ASÍ. Gjaldeyrishöftin séu enn til staðar og ekki miklar líkur á að þau hverfi í bráð. Ekkert bóli á tillögum ríkisstjórnarinnar um gengis- og peningamálastefnu sem áttu að liggja fyrir í byrjun sumars. "Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu skaðlegt það er að ekki liggi fyrir stefna í þessum lykilþáttum efnahagslífsins sex árum eftir hrun. Þá er útlit fyrir að hagvöxtur verði nú borinn uppi af vexti þjóðarútgjalda í stað þess að útflutningur dragi vagninn," eins og stendur orðrétt í hagspá ASÍ.
Versnandi vöruskiptajöfnuður við útlönd
Spáin gerir því ráð fyrir að jöfnuður á viðskiptum við útlönd versni á komandi árum. Þrátt fyrir að ríkissjóður verði rekinn með afgangi sé ekki sjáanlegt að ríkisfjármálin muni styðja við það sem hljóti að vera eitt helsta markið efnahagsstjórnarinnar, að viðhalda stöðugleika. "Þvert á móti virðast stjórnvöld ætla að gera sömu hagstjórnarmistök og gerð voru á árunum fyrir hrun þegar ríkisfjármálin unnu beinlínis gegn viðleitni Seðlabankans til að koma á stöðugleika. Þá má gera ráð fyrir að sú hrina launaleiðréttinga, sem hófst í upphafi árs, muni halda áfram þannig að taktur launabreytinga verði svipaður næstu árin og á yfirstandandi ári."