Hagur íslenskra heimilan heldur áfram að vænkast og hefur hrein eigna heimila aukist umtalsvert á undanförnum misserum. Hún hefur ekki verið meiri frá aldamótum, ef frá er talinn tíminn frá 2005 til 2007. Þetta kemur fram í ársskýrslu Seðlabanka Íslands, en aðalfundur bankans fór fram í dag.
Í skýrslunni segir að Seðlabankinn muni áfram fylgjast vandlega þróun mála á fasteignamarkaði, meðal annars með verðþróun og þá hvort höft kunni að vera hafa áhrif á eignaverð. „Helstu mælikvarðar á fjárhagsstöðu heimila hafa sýnt jákvæða þróun síðustu misseri og horfur eru nokkuð góðar. Kaupmáttur hefur aukist umtalsvert og hrein eign heimila hefur ekki verið meiri frá aldamótum að undanskildum árunum 2005-2007. Dregið hefur úr skuldavanda einstaklinga en þó er skuldastaða ungs fólks enn nokkuð erfið. Á undanförnum tveimur árum hefur húsnæðisverð á Íslandi hækkað í takt við vöxt tekna og minnkandi atvinnuleysi. Á árinu 2014 hækkaði íbúðaverð nokkru hraðar á höfuðborgarsvæðinu eða um 8,6% að raunvirði. Seðlabankinn mun áfram fylgjast náið með þróun íbúðaverðs, meðal annars í ljósi hugsanlegra áhrifa fjármagnshafta á eignaverð,“ segir í ársskýrslu Seðlabankans.
Staðan á vinnumarkaði áhyggjuefni
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í ræðu sinni á fundinum í dag, að staða mála á vinnumarkaði væri mikið áhyggjuefni, og erfitt að segja til um hvernig þróun mála verður á næstu misserum, þegar kemur að verðbólgu. „Staðan á vinnumarkaði er í senn mikið umhugsunar- og áhyggjuefni. Launaþrýstingur sem teflir verðbólgumarkmiði í tvísýnu er jafnan túlkaður þannig að spenna sé í þjóðarbúskapnum og umframeftirspurn sé á vinnumarkaði sem nauðsynlegt sé að bregðast við með aðhaldssamari peningastefnu. Ýmislegt bendir hins vegar til þess að þetta sé ekki meginskýringin nú heldur hitt að sátt um launahlutföll hafi brostið á sama tíma og opnun vinnumarkaðarins gagnvart útlöndum hafi sett þrýsting á þessi hlutföll, í sumum tilfellum í gagnstæða átt við það sem krafa er nú um frá samtökum launafólks,“ sagði Már í ræðu sinni.