Landsframleiðslan á fjórða ársfjórðungi í fyrra jókst um þrjú prósent borið saman við fjórða ársfjórðung 2013 en hagvöxtur á árinu 2014 var 1,9 prósent. Frá þessu var greint á vef Hagstofu Íslands í morgun.
Hagvaxtartölurnar fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2014 vöktu töluverða umræðu þegar þær birtust, í byrjun desember í fyrra. Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins mældist þá 0,5 prósent. Flestar spár fyrir árið 2014 gerðu ráð fyrir meiri hagvexti, og gerði spá Hagstofu Íslands, frá því í nóvember í fyrra, ráð fyrir 2,7 prósent hagvexti.
Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 8,2%. Einkaneysla jókst um 4,5 prósent, samneysla um 2,1 prósent og fjárfesting um 14,2 prósent. Útflutningur dróst saman um 2,9 prósent á sama tíma og innflutningur jókst um 6,7 prósent.
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst um 0,2 prósent milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2014. Þar af jókst einkaneysla um 1,6 prósent og samneysla um 0,7 prósent en fjárfesting dróst saman um 6,9 prósent.
Landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,9 prósent á árinu 2014 og hefur ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Innanlandsneyslan dregur hagvöxtinn áfram en þjóðarútgjöld jukust um 5,3 prósent.
Einkaneysla jókst um 3,7 prósent, samneysla um 1,8 prósent og fjárfesting jókst um 13,7 prósent. „Útflutningur jókst um 3,1 prósent á sama tíma og innflutningur jókst 9,9 prósent þannig að þrátt fyrir verulegan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða 128 milljarða króna, dró utanríkisverslun hagvöxtinn niður,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.