Landsframleiðsla jókst um 2,9 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2015 samanborið við 1. ársfjórðung 2014. Þjóðarútgjöld, sem samanstenda af neyslu og fjárfestingu, jukust um 9,9 prósent á þessum þremur mánuðum. Einkaneysla jókst um 3,9 prósent og samneysla um 1,5 prósent. Fjárfesting jókst um 23,5 prósent. Útflutningur jókst um 2,7 prósent en innflutningur enn meira, eða um alls 17,4 prósent.
Hagstofan birti í dag tölur um landsframleiðslu á fyrstu þremur mánuðum ársins. Árstíðarleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 1,5 prósent milli síðasta ársfjórðungs 2014 og 1. ársfjórðungs 2015. Þar af jókst einkaneysla um 0,8 prósent, samneysla um 0,3 prósent og fjárfesting um 16,1 prósent. Innflutningur jókst um 12,8 prósent á milli tímabilanna en útflutningur jókst um 2,4 prósent.